Alls dvöldu 248 ein­staklingar í Kvenna­at­hvarfinu í Reykja­vík á síðasta ári, 138 konur og 110 börn. Að meðal­tali dvöldu konurnar í at­hvarfinu í 30 daga en börn að meðal­tali í 34 daga. Dag­lega voru að meðal­tali 12 konur og 10 börn í húsinu. Þetta kemur tilkynningu frá Kvennaathvarfinu

312 konur komu í 620 við­töl í at­hvarfinu á síðasta ári án þess að til dvalar kæmi en það er tölu­verð fjölgun miðað við árið 2019 þegar 294 konur komu í 545 við­töl. Meðal­aldur kvennanna sem leituðu í at­hvarfið árið 2020 var 38 ár en konur sem þangað leituðu voru á aldrinum 18-78 ára.

Aukning á til­kynningum um heimilis­of­beldi hefur verið mikið í um­ræðunni í kjöl­far kórónu­veru­far­aldursins en frá því að far­aldurinn skall á hefur mátt greina aukningu á slíkum til­vikum. Til að mynda bárust sam­kvæmt bráða­birgða­tölum frá Lög­reglunni á Höfuð­borgar­svæðinu 77 til­kynningar um heimilis­of­beldi til em­bættisins í apríl og var það aukning um tæp 30 prósent miðað við meðal­tal síðustu sex mánuði á undan.



90 prósent orðið fyrir and­legu of­beldi

Flestar kvennanna sem leituðu í Kvenna­at­hvarfið höfðu orðið fyrr and­legu of­beldi, eða 90 prósent þeirra og 53 prósent höfðu orðið fyrir líkam­legu of­beldi. 44 prósent höfðu orðið fyrir efna­hags­legu of­beldi og 39 prósent fyrir kyn­ferðis­legu of­beldi. Þá hafði lífi 26 prósent kvennanna verið hótað. Flestar kvennanna nefndu fleiri en eina á­stæðu fyrir komu í at­hvarfið.

Meiri­hluti kvennanna sem leituðu í at­hvarfið á síðasta ári voru að flýja maka eða fyrr­verandi maka, sem voru á aldrinum 16-87 ára og voru 98 prósent þeirra karlar. Í 29 prósentum til­vika var um eigin­menn að ræða.

Aukin þjónusta við börn mikil­væg

Sex­tíu prósent mæðra sem leituðu í Kvenna­at­hvarfið nefndu of­beldi gegn börnum þeirra sem eina birtingar­mynd of­beldis og í septem­ber var gerð grund­vallar­breyting á þjónustu at­hvarfsins þegar fé­lags­ráð­gjafi var ráðinn til að halda utan um þá þjónustu sem veitt skuli börnum sem þangað koma.

Í sam­talið við Frétta­blaðið í nóvember segir Sig­þrúður Guð­munds­dóttir, fram­kvæmda­stýra Kvenna­at­hvarfsins, að lengi hafi sú hug­mynd verið uppi að huga betur að börnum í Kvenna­at­hvarfinu en að fé hafi verið af skornum skammti. Í fyrsti bylgju kórónu­veirufar­aldursins hafi at­hvarfinu þó borist stuðningur úr hinum ýmsu áttum. „Fjöldi ein­stak­linga, fyrir­tækja og stofnanna styrkti okkur og okkur fannst mikil­vægt að gera eitt­hvað sem raun­veru­lega skipti máli. Niður­staðan varð sú að ráða fé­lags­ráð­gjafa og veita börnum fram­úr­skarandi þjónustu,“ segir Sig­þrúður.

Berg­dís Ýr Guð­munds­dóttir, fé­lags­ráð­gjafi, var ráðin í starfið og sinnir nú börnum þeirra kvenna sem leita í at­hvarfið. Hún sagði einnig að sam­tali við Frétta­blaðið í nóvember að mikil þörf hafa verið á því að beina ljósinu beint að börnunum. „Það er mikil­vægt að grípa krakkana þegar þau koma hingað á þessari krísu­stundu. Tala við þau og út­skýra hvað er að gerast og hvar þau eru stödd,“ segir hún.

Kvennaathvarfið á Akureyri

Í lok ágúst opnaði Kvennaathvarfið á Norðurlandi í og þar dvöldu 15 íbúar, 8 konur og 7 börn á árinu.

Fréttin hefur verið leiðrétt klukkan 13:33 11.1.2021. Hlutföll undir ástæður komu kvennanna voru röng í tilkynningu sem Kvennaathvarfið sendi út í fyrstu. Það hefur nú verið lagað.