Alls dvöldu 248 einstaklingar í Kvennaathvarfinu í Reykjavík á síðasta ári, 138 konur og 110 börn. Að meðaltali dvöldu konurnar í athvarfinu í 30 daga en börn að meðaltali í 34 daga. Daglega voru að meðaltali 12 konur og 10 börn í húsinu. Þetta kemur tilkynningu frá Kvennaathvarfinu
312 konur komu í 620 viðtöl í athvarfinu á síðasta ári án þess að til dvalar kæmi en það er töluverð fjölgun miðað við árið 2019 þegar 294 konur komu í 545 viðtöl. Meðalaldur kvennanna sem leituðu í athvarfið árið 2020 var 38 ár en konur sem þangað leituðu voru á aldrinum 18-78 ára.
Aukning á tilkynningum um heimilisofbeldi hefur verið mikið í umræðunni í kjölfar kórónuverufaraldursins en frá því að faraldurinn skall á hefur mátt greina aukningu á slíkum tilvikum. Til að mynda bárust samkvæmt bráðabirgðatölum frá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu 77 tilkynningar um heimilisofbeldi til embættisins í apríl og var það aukning um tæp 30 prósent miðað við meðaltal síðustu sex mánuði á undan.
90 prósent orðið fyrir andlegu ofbeldi
Flestar kvennanna sem leituðu í Kvennaathvarfið höfðu orðið fyrr andlegu ofbeldi, eða 90 prósent þeirra og 53 prósent höfðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. 44 prósent höfðu orðið fyrir efnahagslegu ofbeldi og 39 prósent fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þá hafði lífi 26 prósent kvennanna verið hótað. Flestar kvennanna nefndu fleiri en eina ástæðu fyrir komu í athvarfið.
Meirihluti kvennanna sem leituðu í athvarfið á síðasta ári voru að flýja maka eða fyrrverandi maka, sem voru á aldrinum 16-87 ára og voru 98 prósent þeirra karlar. Í 29 prósentum tilvika var um eiginmenn að ræða.
Aukin þjónusta við börn mikilvæg
Sextíu prósent mæðra sem leituðu í Kvennaathvarfið nefndu ofbeldi gegn börnum þeirra sem eina birtingarmynd ofbeldis og í september var gerð grundvallarbreyting á þjónustu athvarfsins þegar félagsráðgjafi var ráðinn til að halda utan um þá þjónustu sem veitt skuli börnum sem þangað koma.
Í samtalið við Fréttablaðið í nóvember segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, að lengi hafi sú hugmynd verið uppi að huga betur að börnum í Kvennaathvarfinu en að fé hafi verið af skornum skammti. Í fyrsti bylgju kórónuveirufaraldursins hafi athvarfinu þó borist stuðningur úr hinum ýmsu áttum. „Fjöldi einstaklinga, fyrirtækja og stofnanna styrkti okkur og okkur fannst mikilvægt að gera eitthvað sem raunverulega skipti máli. Niðurstaðan varð sú að ráða félagsráðgjafa og veita börnum framúrskarandi þjónustu,“ segir Sigþrúður.
Bergdís Ýr Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi, var ráðin í starfið og sinnir nú börnum þeirra kvenna sem leita í athvarfið. Hún sagði einnig að samtali við Fréttablaðið í nóvember að mikil þörf hafa verið á því að beina ljósinu beint að börnunum. „Það er mikilvægt að grípa krakkana þegar þau koma hingað á þessari krísustundu. Tala við þau og útskýra hvað er að gerast og hvar þau eru stödd,“ segir hún.
Kvennaathvarfið á Akureyri
Í lok ágúst opnaði Kvennaathvarfið á Norðurlandi í og þar dvöldu 15 íbúar, 8 konur og 7 börn á árinu.
Fréttin hefur verið leiðrétt klukkan 13:33 11.1.2021. Hlutföll undir ástæður komu kvennanna voru röng í tilkynningu sem Kvennaathvarfið sendi út í fyrstu. Það hefur nú verið lagað.