Hópurinn lenti á Reykjavíkurflugvelli um kvöldmatarleytið á miðvikudag og voru fagnaðarfundir þegar leiðangursmenn föðmuðu fjölskyldumeðlimi sína eftir mánaðaraðskilnað og erfiðar aðstæður.

„Við Brynhildur vorum búnar að ræða þetta öðru hvoru í tvö ár áður en við létum slag standa og auglýstum ferðina síðasta haust,“ segir Vilborg Arna aðspurð um forsöguna.

„Það er ákveðinn hópur sem hefur verið að stunda ferðaskíðamennsku síðustu ár og vaxið innan greinarinnar svo sífellt fleiri eru að verða tilbúnir til þess að takast á við verkefni af þessari stærðargráðu.“


Hún segir hópinn sem skráði sig til leiks sterkan og reynslumikinn, sem er auðvitað lykilatriði í slíkri áskorun. Fólk sem hefur ýmist stundað útivist í áratugi eða komið inn af krafti síðustu ár.

„Flestir höfðu tekið þátt í verkefnum á okkar vegum áður, svo sem í Vatnajökulsþverunum, háfjallaferð til Nepal og fleira.

Það er gaman að sjá greinina vaxa og þróast í þessa átt. Bakgrunnurinn hjá þátttakendum er fjölbreyttur og kemur úr björgunarsveitastarfi, úr hópastarfi í ferðafélögunum og þátttöku í gönguskíða- og últrahlaupum.

Hæfileikarnir leyndu sér heldur ekki þegar kom að því að leysa hin ýmsu mál, svo sem viðgerðir á búnaði, saumaskap eða frumlegri eldamennsku til þess að brjóta upp daglega matseðilinn,“ segir Vilborg.

Hópurinn samankominn en um var að ræða reynslumikið fjallafólk. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Gaman að konum fjölgi


Vilborg var að þvera Grænlandsjökul í annað sinn en í fyrra skiptið, fyrir áratug, gekk hún í öfuga átt.

„Það var lærdómsríkur leiðangur og fyrsta ferðin mín af þessari stærðargráðu. Í gegnum tíðina hafa konur verið í minnihluta þeirra sem stýra stórum leiðöngrum og það er gaman að fylgjast með og taka þátt í þeirri þróun að fjölga þeim.“

Eins og fyrr segir stýrði Vilborg leiðangrinum við aðra konu, hina reyndu Brynhildi Ólafsdóttur, en Vilborg segir þær vinna vel saman í stórum ferðum, enda farnar að læra vel hvor inn á aðra.

„Það er ómetanlegt að eiga trausta og góða félaga úti á örkinni.“

Vilborg segir hana og Brynhildi vinna vel saman í stórum ferðum, enda farnar að læra vel hvor inn á aðra. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Leiðin yfir Grænlandsjökul frá vestri til austurs er 540 kílómetrar samkvæmt korti, en Vilborg segir sjálfa gönguna þó lengri enda þurfi stundum að taka beygjur og sveiga.

„Sérstaklega fyrstu dagana sem liggja í gegnum bláísinn, sem helst er hægt að líkja við völundarhús. Hæsti punktur jökulsins er um 2.500 metrar en hækkunin sjálf er meiri þar sem stallar og landslag eru í jöklinum.“

Vilborg segir oft hægt að ná smá rennsli á skíðunum niður í móti.

„En maður þarf að borga fyrir það með því að skíða upp á bungu strax á eftir.“

Hópurinn gekk þvert yfir jökulinn, 540 kílómetra frá vestri til austur. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Fimbulkuldi og snjóblinda


Vilborg segir það reyna á bæði andlega og líkamlega að þvera jökulinn.

„Flestir finna fyrir þreytu, sumir fá álagsmeiðsli og svo er þetta líka langur tími að heiman frá fjölskyldunni sem getur reynt á. Við fengum þetta árið erfiðar aðstæður, svo sem fimbulkulda og snjóblindu,“ segir Vilborg en hún lýsir snjóblindu á við það að skíða inni í mjólkurglasi.

„Því ekki er hægt að greina mun á himni og jörðu.“

Eins segir hún færið hafa verið svokallað sandpappírsfæri.

„Það stafar af miklum kulda en þá er ekkert rennsli á skíðum og sleðum og færið verður því mjög þungt. Það er því óhætt að segja að hafa þurfti fyrir hverjum kílómetra og þessum fáu góðu dögum sem við fengum var tekið fagnandi af lífi og sál.“

„Það er því óhætt að segja að hafa þurfti fyrir hverjum kílómetra og þessum fáu góðu dögum sem við fengum var tekið fagnandi af lífi og sál.“

Vilborg segir alla hafa einhvern tíma átt erfiða daga í leiðangrinum og að það sé eitt af því sem þurfi að hugsa vel fyrir fram, hvernig maður ætlar að díla við slíkar stundir, því þær séu óhjákvæmilegar á svo löngum tíma.

„Gott pepp frá félaga, tónlist eða hljóðbók í eyrun getur gert kraftaverk á slíkum stundum og flestir ná sér fljótt og vel á strik. Ég elska sjálf að vera með eitthvað á takteinum, bæði þegar ég er í stuði sem og þegar á þarf að halda.“


Verbúðar-playlistinn alla leið


Í þessari ferð vildi þó ekki betur til en svo að niðurhalið á síma Vilborgar misfórst eitthvað, en hún taldi sig vera að leggja af stað með gríðarlega gott og skemmtilegt úrval af tónlist.

„Það vildi þó ekki betur til en svo þegar að á reyndi að þá var eitthvað minna inni á símanum, eiginlega bara nokkur lög eða óviðjafnanlegur Verbúðar-playlistinn á Spot­ify.

Mörg lögin eru algjör nostalgía og gaman að tralla með en ég viðurkenni að það gerði ekki mikið fyrir stuðið í mér að fá lögin Máninn hátt á himni skín eða Nú er árið liðið, í þúsundasta skiptið í ferðinni, en það er samt svolítið fyndið.

Ég valdi lagið Svart-hvíta hetjan mín sem lag ferðarinnar hjá mér,“ segir hún og hlær.

Hópur Vilborgar og Brynhildar var þó ekki einn á Grænlandsjökli enda annar íslenskur hópur á vegum leiðsögumannsins Einars Torfasonar einnig á ferðinni og urðu miklir fagnaðarfundir þegar þeir mættust á hájöklinum.

Vilborg segir hópinn hafa sýnt frumleika til að brjóta upp daglegan matseðilinn. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Tveir íslenskir hópar í fyrsta sinn


„Við gengum frá vestri til austurs en sá hópur gekk í hina áttina, svo við mættumst á jöklinum.

Við vorum í sambandi í gegnum skilaboð sem send voru í gegnum gervihnött enda ekkert símsamband á jöklinum. Þannig náðum við að bera saman bækur okkar og sjá til þess að við værum örugglega á sömu stefnu og gátum ákvarðað hvenær hóparnir myndu ná saman.

Það var líka skemmtilegt og hvetjandi að skrifast á og fá fréttir af hvert öðru, auk þess könnuðust menn við hver annan í hópunum.“

„Þetta er í fyrsta skipti sem tveir íslenskir hópar af þessari stærð þvera jökulinn. Þetta var frábær stund og Íslendingar eru svo sannarlega að sækja í sig veðrið þegar kemur að ferðum af þessari stærð.

Ég á von á því að í framtíðinni muni sífellt fleiri leggja leið sína yfir jökulinn. Nágrannar okkar í Noregi hafa verið duglegir á þessum vettvangi en það kæmi mér ekkert á óvart þótt við færum að sækja á þá, svona miðað við höfðatölu allavega,“ segir Vilborg í léttum tón.

Vilborg segir færið hafa verið erfitt, svokallað sandpappírsfæri. „Það stafar af miklum kulda en þá er ekkert rennsli á skíðum og sleðum og færið verður því mjög þungt." Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Þíddu matinn innanklæða


Segja má að hópurinn hafi sannarlega verið minntur á að hann væri á jökli en kuldinn mældist nokkrum sinnum 42 gráðu frost með vindkælingu. Kuldavarnir eru gríðarlega mikilvægar, svo sem andlitsgrímur, góður fatnaður og var hópurinn til að mynda með sérstakar skóhlífar til þess að einangra skóna sína enn betur á köldustu dögunum.

„Maður þarf að vera meðvitaður um að snerta ekki málmhluti með berum höndum og stundum skíðuðum við í sérstökum hlífðarpilsum til þess að verja rass og læri.

Ég fékk sjálf til dæmis útbrot af kuldanum sem ég þurfti að passa vel upp á. Vatn þarf að geyma í hitabrúsa eða einangruðum hulstrum og matur frýs auðveldlega svo það þarf stundum að þíða hann innanklæða áður en maður gæðir sér á veigunum.“

„Maður þarf að vera meðvitaður um að snerta ekki málmhluti með berum höndum og stundum skíðuðum við í sérstökum hlífðarpilsum til þess að verja rass og læri."

Vilborg segir þó best í heimi að hita upp svefnpokann sinn með sjóðandi heitum vatnsflöskum sem halda á manni hita fram eftir nóttu.

„Flöskurnar fá ýmis nöfn, svo sem kærastar og knúsarar. Það má líka nota þær til þess að rúlla auma vöðva í lok dags. Eins þarf líka að notast við bensínprímusa því þeir virka best í slíkum kulda á meðan gasið frýs og þá er ekki hægt að bræða snjó til þess að fá vatn í mat og drykk.“

Á köldustu dögunum frestaði hópurinn brottför og skíðaði færri klukkustundir til þess að forðast að fá kal.

„Það dugði þá að bíða eftir minni vindi til þess að fá hagstæðari aðstæður. Kaldasta nóttin okkar var mínus 35 gráður í lofthita og margar nætur voru í kringum 30 gráðu frost. Þá þurftum við að dúða okkur vel og huga að kuldavörnum.“

Köldustu nótt leiðangursins mældist lofthitinn mínus 35 gráður. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Ísbjarnarvaktir í tvo sólarhringa


Leiðangurinn sjálfur tók 30 daga – aðeins lengri tíma en leiðsögumenn höfðu vonast til en veður og færð töfðu fyrir.

Það var þó óhagstæð veðurspá sem flýtti för undir lokin en afráðið var að skíða 65 kílómetra í einni lotu undir lokin til að ná af jökli áður en veðrið myndi skella á og hópurinn yrði tilneyddur til að bíða það af sér.

„Í staðinn biðum við niðri við jökulræturnar í þoku og úrkomu en sluppum við hvassviðri. Þar sem ekki var neitt skyggni var heldur ekki hægt að sækja okkur og við biðum róleg en á ísbjarnarvöktum,“ segir Vilborg en hópurinn var sóttur af þyrlu.

„Við sáum ísbjarnarspor 25 kílómetra inni á jökli og þann sama dag og við komum niður var veiddur björn í nágrenninu við okkur,“ segir Vilborg, sem sönnun þess að full ástæða hafi verið til að gæta varúðar og vera á vaktinni.

„Við sáum ísbjarnarspor 25 kílómetra inni á jökli og þann sama dag og við komum niður var veiddur björn í nágrenninu við okkur."

„Við vorum með blys til þess að fæla ísbirni og vopn til þess að verja okkur ef til þess kæmi. Á hverri vakt voru tveir leiðangursmenn í tvær klukkustundir í senn. Við náðum líka kærkominni hvíld á meðan við biðum eftir því að þokunni létti.“


Sumir elska bras og áskoranir


En loks voru þau sótt, þreytt, sæl og óétin og flugu á endanum heim frá Kulusuk með Icelandair. En hvers vegna ætli leiðangur á við þennan kitli ævintýraþrána? Hvers vegna vill fólk taka alla sumarfrísdagana sína snemmsumars í fimbulkulda og illri færð fjarri mannabyggðum?

„Fólk fer af stað af ýmsum ástæðum, svo sem langþráður draumur hjá sumum, aðrir elska bras og áskoranir á meðan sumir vilja brjóta upp tilveruna,“ segir Vilborg létt í bragði.

Eins og sjá má bjóst Vilborg alls ekki við því að maðurinn hennar, Ales Cesen, tæki á móti henni á Reykjavíkurflugvelli. Parið býr í Slóveníu og vissi Vilborg ekki betur en að þau ætluðu að hittast þar. Fréttablaðið/Valli

„Ég hef sjálf verið heilluð af leiðöngrum í yfir tuttugu ár og verið á ferðinni síðustu tíu ár. Hjá mér er þetta sambland af því að takast á við stórar áskoranir og krefjandi verkefni.

Mér finnst gaman að vera úti og upplifa náttúruna í svona miklu návígi og að takast á við sjálfa sig í þessum aðstæðum, auk þess er fjalla- og leiðangursmennska ástríðan mín.

Það þýðir þó ekki að ég þurfi ekki hvíld inni á milli og geri aldrei neitt annað, en þetta er kjarninn minn og sál. Ég kann líka vel að meta bæði undirbúningstímann og dagana á eftir þegar maður er að melta reynsluna.“


Næsti tindur átta þúsund metrar


Við náðum tali af Vilborgu daginn eftir heimkomuna og sagði hún vel hafa verið tekið á móti þeim með veislu þar sem vinir og vandamenn buðu upp á góða stund og veitingar.

„Í dag eru svo flestir að slappa af, þurrka og ganga frá búnaði og sumir að skella sér í smá dekur eins og nudd. Það má heldur ekki gleyma því að matarlyst er í meira lagi eftir svona ferðir.“

En dekrið varir ekki lengi hjá Vilborgu sem er á leið í næsta stóra verkefni í byrjun júlí.

„Þá held ég til Pakistan ásamt Ales Cesen, manninum mínum, Sigga Bjarna og breska klifraranum Tom. Þar stefnum við á einn af 8.000 metra tindunum í Karakorum-fjallgarðinum.

Svo ég tek stutta hvíld og nokkra sukkdaga áður en ég helli mér aftur í æfingar og undirbúning. Tímabilið einkennist af því að byggja upp styrk og hæfni, auk þess að hafa gott jafnvægi á milli hvíldar, næringar og æfinga.

Svo má ekki gleyma að ég fer fyrir árlegri ferð Ferðafélagsins á Hvannadalshnúk um hvítasunnuna, sem er alltaf jafn skemmtileg upplifun,“ segir Vilborg Arna að lokum.