Yfir sjötíu manns hafa látist í Mexíkó síðan í lok apríl eftir að hafa drukkið heimabruggað áfengi sem reyndist eitrað.

Áfengissala var bönnuð víða í landinu í lok apríl til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Þá voru brugghús í landinu einnig látin loka starfsemi sinni.

Yfirvöld telja að þessar nýju lagasetningar hafi orðið til þess að almenningur fór að kaupa áfengi í meira magni á svörtum markaði.

Samkvæmt New York Times er er umsvifamikill ólöglegur markaður í Mexíkó sem selur áfengi sem hefur verið bruggað við misjafnar aðstæður. Algengt sé að fólk hafi veikst eftir að drekka slíkt áfengi og jafnvel látið lífið en dauðsföll síðustu vikna hafa verið óvenjulega há.