Rúm­lega 62 prósent þjóðarinnar hefðu kosið að far­þegar sem kæmu til landsins frá skil­greindum há­á­hættu­svæðum yrði gert að vera í sótt­kví undir eftir­liti á sótt­varna­hóteli. Sami hópur styður breytingu á sótt­varna­lögum sem myndi heimila slíka kvöð. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðar­púlsi Gallup.

Yfir þriðjungur þeirra sem tóku af­stöðu könnuninni eru hins vegar sátt við reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra sem felur í sér að komu­far­þegar sem eiga að fara í sótt­kví geti verið í heima­húsi að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum.

Þá hefðu um fjögur prósent kosið að komu­far­þegar hefðu fengið að ráða hvar þeir væru í sótt­kví án þess að reglur um heima­sótt­kví væru hertar.

Ólíkt milli kjósenda

Niður­stöður könnunarinnar sýndu fram á að ekki væri mark­tækur munur á svörum fólks eftir kyni, aldri, bú­setu, menntun eða tekjum en að tölu­verður munur sé á svörum eftir því hvaða flokk það kysi til Al­þingis ef kosið yrði í dag.

Nærri helmingur Sjálf­stæðis­manna kváðust vera sátt við reglu­gerð sem heimilar komu­far­þegum að vera í sótt­kví í heima­húsi að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum. Þau sem kusu aðra flokka voru mun ó­lík­legri til að vera sátt með reglu­gerðina, lang­fæstir sögðust styðja hana í Mið­flokknum eða að­eins 16 prósent.

Tæp­lega 46 prósent Sjálf­stæðis­manna vilja að komu­far­þegar frá há­á­hættu­svæðum sé gert að vera í sótt­kví á sótt­varna­hóteli á meðan um 61 til 73 prósent þeirra sem kysu aðra flokka vilja það.

Reglur sem tóku gildi 1. apríl síðast­liðinn kröfðust þess að far­þegar sem komu til landsins frá skil­greindum há­á­hættu­svæðum yrði skilt að dvelja í sótt­kví undir eftir­liti á sótt­varna­hóteli. Eftir kærur frá far­þegum kvað Héraðs­dómur hins vegar upp þann úr­skurð að ekki væri laga­heimild fyrir reglunum.

Eftir að Lands­réttur vísaði frá kæru sótt­varnar­læknis á úr­skurði Héraðs­dóms tók ný reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra gildi þann 9. apríl, en hún fól í sér að komu­far­þegar sem ættu að fara í sótt­kví gætu verið í heima­húsi að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum.