Stærsta hollið það sem af er á yfirstandandi makrílvertíð var híft upp á uppsjávarskipi Samherja, Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, fyrr í vikunni, en það var 660 tonn.

Skipverjar komu með vænan afla til Neskaupstaðar í morgun, með 1.580 tonn af makríl, eftir tveggja sólarhringa stím norður í höf og annan eins tíma á bakaleiðinni, að því er fram kemur í tilkynningu frá útgerðarfélaginu.

Hjörtur Valsson skipstjóri segir ómögulegt að áætla hvernig vertíðin þróast, makríllinn syndi hratt til norðurs, en miðin sé nú að finna norður af Jan Mayen, í um 600 sjómílna fjarlægð frá Norðfirði.

„Veiðin hefur verið ágæt síðasta hálfa mánuðinn en það er með öllu ómögulegt að sjá fyrir sér hvernig vertíðin þróast. Makríllinn færir sig norður um 30 til 50 mílur á sólarhring, þannig að siglingin á miðin lengist í raun með hverjum deginum sem líður,“ segir Hjörtur og telur að flotinn hafi aldrei áður sótt svona norðarlega.

Það þýði auðvitað að megnið af túrunum fari í að sigla fram og til baka, „en á móti kemur að veiðin er nokkuð góð, svo og hráefnið,“ segir Hjörtur Valsson.