Sóttvarnaryfirvöld hafa ekki rætt við Heilsu­gæsluna á höfuð­borgar­svæðinu um að stytta sumar­fríið og hefja þriðju bólu­setningar­um­ferðina fyrr. Á­ætlað er að bólusetningar fara aftur af stað seint í ágúst en um 52 þúsund „full­bólu­settir“ ein­staklingar þurfa að fara aftur í bólu­setningu.

„Eins og Þór­ólfur sagði þá verður þetta seinna í ágúst. Hann vill láta líða ein­hvern tíma á milli þangað til það verður endur­bólu­sett með Pfizer,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmdar­stjóri Heilsu­gæslu Höfuð­borgar­svæðisins.

„En við verðum til­búin það er ekki spurning,“ bætir hún við.

Allir þeir sem fengu bólu­efni fá Jan­ssen þurfa að koma aftur og fá aðra sprautu frá Pfizer en 52.871 ein­staklingar fengu Jan­ssen á Ís­landi. Þá verða einstaklingar í áhættuhóp sendir í þriðju sprautuna. Spurð um hvort Ís­land eigi nóg af Pfizer bólu­efni fyrir þennan fjölda, segir Ragn­heiður svo vera.

„Ég held það já en það er alltaf að berast til landsins, þannig það ætti að vera vanda­mál. Það er síðan bara spurning hve­nær og hvernig þetta verður út­fært. Við erum bara svona rétt að setja okkur í stellingar og hugsa smá á meðan við erum í sumar­fríi,“ segir Ragn­heiður létt.

„Þetta verður ekkert má að vippa þessu í liðinn. Svo eru það þessi ein­staklingar sem þurfa að fá þriðju sprautuna. Það eru þessir við­kvæmu hópar,“

Ekkert mál að bólusetja börnin

Sótt­varna­læknir hefur ekki enn tekið á­kvörðun um hvort bólu­setja eigi 12 til 15 ára en rætt hefur verið um að gera það líka í lok ágúst. Endur­bólu­setningar gætu komið í veg fyrir það en það fellur einnig í hlut heilsu­gæslunnar. Ragn­heiður segir það hins vegar vera lítið mál.

„Ef að sótt­varna­læknir á­kveður að bólu­setja þennan hóp þá myndum við gera það í skólanum. Við erum svo vön að bólu­setja í skólum. Þannig það er ekkert mál,“ segir Ragn­heiður.