Í nýrri skýrslu sem Amnesty International birti á dögunum kemur fram að fleiri en 3.000 heilbrigðisstarfsmenn hafa látið lífið vegna Covid-19 á heimsvísu. Þó er talið að mun fleiri hafi látið lífið en tölurnar gefa til kynna.

Skýrslan er byggð á reynslu fólks sem hefur starfað í framlínunni á tímum kórónuveirunnar, víðs vegar í heiminum.

Amnesty International krefst þess að ríkisstjórnir taki ábyrgð á dauðsföllum heilbrigðisstarfsmanna sem hafa látið lífið vegna Covid-19.

Amnesty komst að því að í sumum löndum vinnur heilbrigðisstarfsmenn í mjög erfiðum aðstæðum þar sem ekki er farið eftir settum reglum og skortur er á hlífðarbúnaði. Amnesty telur að þetta sé á ábyrgð ríkisstjórna og að þeim hafi mistekist að vernda sitt mikilvægasta fólk í baráttunni við veiruna.

„Þar sem kórónuveirufaraldurinn er enn í vexti víða þá hvetjum við stjórnvöld til að setja heilsu og öruggi heilbrigðisstarfsmanna í forgang. Lönd sem eiga enn eftir að upplifa það versta mega ekki gera sömu mistök og þær ríkisstjórnir sem vernduðu ekki fólk í framlínunni,“ sagði Sanhita Ambast, rannsakandi og ráðgjafi hjá Amnesty International.

Skortur er á hlífðarbúnaði í mörgum löndum.
Fréttblaðið/ Getty images.

Í skýrslunni kom einnig fram að starfsfólki hafi verið hótað uppsögn þegar það lýsti yfir áhyggjum sínum eða lét vita að því sem betur mætti fara.

„Það er sorglegt að sjá að sumar ríkisstjórnir refsa starfsmönnum sem láta í ljós áhyggjur sínar vegna vinnuaðstæðna sem geta ógnað lífi þeirra. Heilbrigðisstarfsmenn í framlínunni vita það fyrst af öllum hvort stefna stjórnvalda gengur eða ekki og yfirvöld sem þagga niður í þeim eru ekki að setja lýðheilsu í forgang.“

Flestir látið lífið í Rússlandi og Bretlandi

Eins og er þá eru ekki til neinar opinberar tölur yfir það hversu margir starfsmenn sem starfað hafa í framlínunni hafa látið lífið vegna Covid-19.

Amnesty International hefur hins vegar safnað saman og greint gögn frá 79 löndum sem sýna að yfir 3.000 heilbrigðisstarfsmenn hafa látið lífið eftir að hafa smitast af Covid-19.

Samkvæmt þessum gögnum hafa flestir látið lífið í Rússlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Brasilíu, Mexíkó og á Ítalíu.

Talið er að mun fleiri séu þó látnir en tölurnar gefa til kynna vegna þess að almennileg gögn skortir frá mörgum löndum og samanburðurinn því erfiður. Sem dæmi þá hefur Frakkland aðeins safnað gögnum frá nokkrum sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum í landinu. Þau gögn sem að heilbrigðisyfirvöld í Egyptalandi og Rússlandi hafa veitt, var harðlega mótmælt af ríkisstjórnum þeirra.

Skortur á hlífðarbúnaði

Heilbrigðisstarfsfólk í nærri öllum löndunum þar sem rannsóknin var unnin sagði að alvarlegur skortur væri á hlífðarbúnaði á vinnustað þeirra.

Þar á meðal eru lönd þar sem að faraldurinn er enn í miklum vexti eins og á Indlandi, Brasilíu og í nokkrum löndum í Afríku. Læknir sem starfar í Mexíkó sagði við Amnesty að læknar þar í landi væru að eyða um 12 prósent af mánaðarlaunum sínum í að kaupa sinn eigin hlífðarbúnað.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.