Yfir þrjá­tíu þúsund manns hafa nú sótt um hluta­bætur eftir að starfs­hlut­fall þeirra lækkaði af völdum CO­VID-19 far­aldursins. Flestar eru um­sóknirnar úr ferða­þjónustu en yfir 12 þúsund starfs­menn í greininni hafa sótt um bætur. Úr verslun og vöru­flutningum hafa yfir 6 þúsund um­sóknir hafa borist. Þetta kemur fram í til­kynningu frá ASÍ.

Dreifing um­sækjanda um landið er í takt við dreifingu starfandi fólks í landinu. Fjöldi um­sækj­enda er þó hlut­falls­lega hærri á Suður­nesjum og á höfuð­borgar­svæðinu en á lands­byggðinni. Alls hafa 11 prósent um­sókna borist frá í­búum Suður­nesja, þar sem að­eins átta prósent starfandi lands­manna bjuggu á síðasta ári.

Skipting umsókna eftir landshlutum.
Tafla/ASÍ

Ungt fólk með flestar um­sóknir


Ríf­lega þrír af hverjum fjórum um­sækj­endum eru ís­lenskir ríkis­borgarar, en um 14 prósent eru Pól­verjar og tíu prósent borgarar annarra ríkja. Í fyrra voru um 80 prósent starfandi fólks hér­lendis Ís­lendingar en 20 prósent út­lendingar.

Flestar um­sóknir bárust úr yngsta aldur­hópi landsins og voru 27 prósent um­sækjanda á aldrinum 18 til 29 ára. Lægst er hlut­fallið meðal fólks á aldrinum 60-69 ára, en 9 prósent um­sækj­enda eru á þeim aldri saman­borið við 11,7 prósent af starfandi fólki.

Fjöldi umsókna eftir aldri.
Tafla/ASÍ