Rúm­lega sau­tján þúsund ein­staklingar hafa þegar skrifað undir á­skorun til stjórn­valda um að leið­rétta breytingu á aldurs­mörkum kvenna sem boðaðar eru í brjósta­krabba­meins­skimun. Um ára­mótin hækkuðu aldurs­mörkin úr 40 ára í 50 ára.

Jónína Sæ­vars­dóttir, sem hóf undir­skrifta­söfnunina, segir breytingarnar ógna lífum kvenna. „Ég tel að þetta sparnaðar­ráð verði hár fórnar­kostnaður fyrir þær konur sem munu greinast of seint vegna nýju reglnanna.“

Hættulegt að greinast seint

Mál­efnið stendur Jónínu nærri enda þekkir hún af biturri reynslu hversu dýr­keypt það getur verið að greinast of seint með svo hættu­legan sjúk­dóm. „Amma mín dó úr brjósta­krabba­meini og mamma mín úr lungna­krabba­meini. Þetta er fljótara að gerast en maður áttar sig á.“

Því seinna sem fólk greinist því erfiðara sé að glíma við sjúk­dóminn. „Ég fór fyrst í brjósta­mynda­töku 36 ára svo ég get bara ekki hugsað þá hugsun til enda ef það á að hindra konum á þeim aldri að­gang að skimun.“

Margir í ætt Jónínu hafi greinst með brjósta­krabba­mein fyrir fer­tugt og að hennar mati ætti frekar að lækka aldurinn en hækka hann. „Þetta er land­lægur sjúk­dómur og ég á vin­konur sem eru undir þrí­tugt sem hafa lent í því að fá brjósta­krabba­mein og missa brjóst og annað.“ Því megi alls ekki skerða þjónustuna sem þegar er í boði.

Samhugur meðal fólks

Þegar Jónína frétti af breytingunum sem tóku gildi um ára­mótin á­kvað hún að hefja undir­skrifta­söfnun. „Ég heyrði þetta í gær­kvöldi og vildi strax vekja at­hygli á þessu.“ Við­tökur hafa ekki látið á sér staðið og hrannast undir­skriftum upp á hverri mínútunni. Nú þegar hafa tæp­lega 18 þúsund manns skrifað undir á­skorunina.

Jónína kveðst ekki hafa búist við svo skjótum við­tökum. „Þetta sýnir bara að það er sam­hugur í fólki og vilji til þess að breyta þessu til baka. Þetta ógnar öryggi allra.“

Frá 2015-2019 greindust ár­lega að meðal­tali 31 brjósta­krabba­mein hjá konum á aldrinum 40-49 ára. Um 50 konur deyja vegna brjósta­krabba­meins á hverju ári á Ís­landi. Ljóst er að skimanirnar bjargi fjölda lífa á hverju ári að mati Jónínu, sem þekkir margar konur sem höfðu ekki fundið fyrir neinum ein­kennum áður en þær greindust í skimuninni.

Kallar eftir viðbrögðum

Mark­mið undir­skriftalistans er að vekja at­hygli stjórn­valda á mál­efninu og skorar Jónína sér­stak­lega á Svan­dísi Svavars­dóttur, heil­brigðis­ráð­herra, og Katrínu Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra, til að bregðast við.

Jónína kveðst ekki vera viss hvernig hún muni af­henda undir­skriftirnar en býst þó fast­lega við að senda á­skorunina á yfir­völd þegar fleiri hafa skrifað undir. „Maður sér bara hvernig undir­tektirnar eru en yfir­völd hljóta þá að fara að finna nasa­þefinn af því að fólk er ó­á­nægt með þessa breytingu. Þetta snertir við svo rosa­lega mörgum.“

Fleiri hafa mót­mælt breytingunum þar á meðal Krabba­meins­fé­lag Ís­lands sem vakið hefur at­hygli á því að nýja fyrir­komu­lagið brjóti í bága við evrópskar leið­beiningar. Í þeim er mælt með skimun 45 til 49 ára kvenna. Þá mælti fagráð um brjósta­krabba­mein með því að hefja skimun við 45 ára aldur.

Hægt er skrifa undir listann hér.