Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra, opnaði í dag vef­síðu þar sem lands­mönnum er boðið að gefa henni um­sögn og ein­kunn fyrir störf sín í ráð­herra­stól. Yfir­skrift vef­síðunnar er „Dæmdu dóms­mála­ráð­herra“ og getur fólk þar valið merkingu sem þeim finnst eiga við um störf hennar sem ráðherra.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá dóms­mála­ráð­herra hafa yfir 1500 manns nú þegar tekið þátt í kosningunni.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Ás­laug að stór meiri­hluti af viðbörgðunum hafa verið já­kvæðar en mark­miðið er að fara yfir á­bendingarnar á næstu vikum.

„Það er mikið af skemmti­legum og á­huga­verðum á­bendingum þarna sem var mark­miðið með þessu, að heyra frá fólki, fá við­brögð við mínum störfum og fá að vita hvað ég get gert betur,“ segir Ás­laug.

„Það er mjög gaman að sjá hvað mikið af fólki hefur tekið þátt en eitt hlut­verk stjórn­mála­manns er að vera í sam­bandi við fólk,“ segir hún enn fremur.

Fólk kýs með því að smella á bros­karl sem þeim finnst best eiga við um störf Ás­laugar en lands­mönnum er boðið upp á merkja við bros­karl með stjörnum í augunum, þumal­putta upp, þumal­putta niður eða reiðan kall að ausa blóts­yrðum.

Sam­kvæmt um­fjöllun Stundarinnar um kosninguna segir að ef kjósandi velur já­kvæða bros­karlinn eða þumalinn upp er við­komandi boðið að skilja eftir nafn, net­fang og fæðingar­ár og segir yfir­skriftin „Gaman að heyra! Má ég vera í sam­bandi við þig á­fram?“

Ef kjósandi velur þumalinn niður eða reiða bros­karlinn koma upp skila­boðin „Leiðin­legt að heyra. Hvað finnst þér ég geti gert betur?“ á­samt formi til að senda á­bendingu til ráð­herrans.