Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, opnaði í dag vefsíðu þar sem landsmönnum er boðið að gefa henni umsögn og einkunn fyrir störf sín í ráðherrastól. Yfirskrift vefsíðunnar er „Dæmdu dómsmálaráðherra“ og getur fólk þar valið merkingu sem þeim finnst eiga við um störf hennar sem ráðherra.
Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðherra hafa yfir 1500 manns nú þegar tekið þátt í kosningunni.
Í samtali við Fréttablaðið segir Áslaug að stór meirihluti af viðbörgðunum hafa verið jákvæðar en markmiðið er að fara yfir ábendingarnar á næstu vikum.
„Það er mikið af skemmtilegum og áhugaverðum ábendingum þarna sem var markmiðið með þessu, að heyra frá fólki, fá viðbrögð við mínum störfum og fá að vita hvað ég get gert betur,“ segir Áslaug.
„Það er mjög gaman að sjá hvað mikið af fólki hefur tekið þátt en eitt hlutverk stjórnmálamanns er að vera í sambandi við fólk,“ segir hún enn fremur.
Mig langar að heyra frá þér. Með því að smella á linkinn getur þú sagt mér hvernig þér finnst ég hafa staðið mig á kjörtímabilinu, komið með ábendingar eða sagt mér hvað ég gæti gert betur. https://t.co/MCopI1S4kx pic.twitter.com/DTefTIjgZX
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) January 8, 2021
Fólk kýs með því að smella á broskarl sem þeim finnst best eiga við um störf Áslaugar en landsmönnum er boðið upp á merkja við broskarl með stjörnum í augunum, þumalputta upp, þumalputta niður eða reiðan kall að ausa blótsyrðum.
Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar um kosninguna segir að ef kjósandi velur jákvæða broskarlinn eða þumalinn upp er viðkomandi boðið að skilja eftir nafn, netfang og fæðingarár og segir yfirskriftin „Gaman að heyra! Má ég vera í sambandi við þig áfram?“
Ef kjósandi velur þumalinn niður eða reiða broskarlinn koma upp skilaboðin „Leiðinlegt að heyra. Hvað finnst þér ég geti gert betur?“ ásamt formi til að senda ábendingu til ráðherrans.