Yeonmi Park flúði frá Norður-Kóreu þegar hún var þrettán ára. Hún býr nú í Bandaríkjunum og berst fyrir bættum mannréttindum landa hennar sem búa við ógnarstjórn Kim Jong-un.

Hún ávarpar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í New York Times og hvetur hann til þess að nota áhrif sín til þess að þvinga fram mannréttindabætur í Norður-Kóreu.

Ekkert breytist þar við það eitt að funda með Kim Jong-un sem noti fundina sína með forseta Suður-Kóreu og Trump til þess að fegra ímynd sína út á við og sýna og sanna mátt sinn og megin heima fyrir.

Park segir mannréttindi hvergi í heiminum jafn fótum troðin og í Norður-Kóreu. Kim Jong-un reki fangabúðir og svelti þjóð sína til þess eins að hafa fulla stjórn á henni.

Sjá einnig: Yeonmi Park fagnar fæðingu frjáls sonar

„Þegar ég sá forseta Suður-Kóreu faðma Kim Jong-un, spurði ég sjálfa mig: Myndir þú gera það sama við Hitler?“ spyr Park í upphafi máls síns og furðar sig á því að heimurinn fagni nú Trump fyrir að hafa hitt harðstjórann þótt ekkert bendi til þess að ástandið í Norður-Kóreu verði betra í kjölfarið.

Yeonmi Park flúði frá Norður-Kóreu til Kína, ásamt móður sinni árið, 2007. Segja má að þær hafi farið úr öskunni í eldinn en í Kína hneppti mansalshringur mæðgurnar í þrældóm. Þær komust síðar í frelsið í Suður-Kóreu með ævintýralegum hætti.

Yeonmi er nú frjáls kona og býr í New York. Saga hennar, Með lífið að veði, hefur verið þýdd á fjölda tungumála og hún er einn harðasti og ötulasti gagnrýnandi ógnarstjórnar Kim Jong-un í Norður-Kóreu og er sem slík eftirsóttur fyrirlesari út um allan heim.