Fjöldi sérfræðinga hefur haldið erindi á tuttugu ára afmælisráðstefnu Barnahúss í Hörpu í dag. Þeir segja stofnunina afar mikilvæga og að gott hafi verið að hafa fordæmi til þess að vinna eftir. Barnahús sinnir málefnum barna sem hafa sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

Carl Göran Swedin, forstöðumaður Barnahúss í Svíþjóð, sagði í erindi sínu að það hafi verið lykilatriði að hafa getað fengið fordæmi frá Íslandi fyrir stofnun hússins í Svíþjóð. Þá hafi ekki síður verið mikilvægt að hafa talsmann eins og Braga Guðbrandsson, fyrrum forstjóra Barnaverndarstofu, auk þess sem stuðningur frá dómsmálaráðherra Svía hafi skipt miklu máli, þar sem mikil andstaða hafi verið innan lögreglunnar fyrir stofnun hússins og þjónustu þess.

Svíar opnuðu sitt fyrsta Barnahús árið 2006 og eru þau orðin 32 talsins í dag. Swedin sagði fjölgun húsanna mikið fagnaðarefni en benti á að mikilvægt væri að sömu stöðlum sé fylgt um allan heim svo börn hafi aðgengi að sömu þjónustu alls staðar.

Þá fjallaði Turil Heiberg um þróun Barnahússins í Eystrasaltslöndunum. Hún sagði Braga Guðbrandsson hafa haft veigamikil áhrif á það hversu vel gengi að þróa verkefnið og koma því á þar. Fjöldi Eystrasaltslanda vinnur að því að koma á Barnahúsi og nefndi til dæmis Lettland, Litháen, Pólland, Kýpur, Rúmenía og Möltu.

Sjá einnig: Mikilvægt að lög geri ráð fyrir að börn fái vernd gegn ofbeldi

George Nikolaidis, formaður Lanzarote-nefndarinnar á vegum Evrópuráðsins, fjallaði í erindi sínu um mikilvægi þess að barn sem beitt er ofbeldi fái hlutverk þegar mál þess er tekið til meðferðar og um mikilvægi þess að börn segi aðeins sögu sína einu sinni, líkt og tíðkast í Barnahúsinu, þar sem skýrslutaka fer fram í barnvænu umhverfi og er tekin upp. Þannig er hægt að komast hjá því að barnið þurfi að upplifa ofbeldið aftur og aftur með því að segja fjölda ólíkra aðila sögu sína.

Þá fjallaði hann um miðstöðvar í Bandaríkjunum þar sem börnum er veitt svipuð þjónusta og í Barnahúsi. Hann sagði að þær væru nú orðnar 800 talsins og að á hverju ári fari um 200 þúsund börn í viðtöl þar.

Hann sagði að þrátt fyrir að mikill árangur væri búinn að nást þyrfti að leggja meiri áherslu á að öll börn hefðu sama tækifæri og aðgengi að miðstöðvunum og slíkri þjónustu, sama hvar boðið er upp á hana, og nefndi þar sérstaklega aðgengi fatlaðra barna og börn á flótta.

Hann sagði að lokum að það mætti ekki gleyma því að forvarnir gegn ofbeldi sé verkefni sem taki langan tíma og því þurfi mikla þrautseigju og raunverulegur ávinningur náist ekki nema með samstarfi stofnanna, ríkis og samtaka. Hann tók undir orð Mörtu Santos País frá því fyrr um morguninn og sagði að lagasetning sé aðeins eitt skref í áttina að því að vernda börn fyrir ofbeldi en að það breyti ekki öllu heldur opni fyrir nýjar áskoranir og lauk máli sínu á frægri tilvitnun í Winston Churchill og sagði:

„Þetta er ekki endirinn, en þetta getur verið upphaf endisins“

Börn oft ein til frásagnar

Auk þeirra hélt prófessorinn Michael E. Lamb, frá háskólanum í Cambridge erindi um viðtalstækni og mikilvægi þess að rétt tækni sé notuð þegar viðtöl eru tekin við börn sem beitt hafa verið ofbeldi. Hann sagði að oft séu börn ein til frásagnar um það ofbeldi sem þau verða fyrir og því sé einstaklega mikilvægt að rétt sé farið að þegar rætt er við þau.

Lamb sagði að Barnahúsið væri gott dæmi því þar sé þjálfað starfsfólk sem þekki aðferðirnar sem hann vísaði til og noti þær.

Hann sagði frá rannsóknum sem hann hefur framkvæmt þar sem skoðuð voru viðtöl sem tekin höfðu verið við börn þar sem sterkar vísbendingar voru um að þau hafi verið beitt ofbeldi og sagði að í um helmingi tilfella fengust ekki upplýsingar um það í viðtalinu því spyrjandi spurði ef til vill ekki réttra spurninga eða með réttum aðferðum.

Hann sagði að allt niður í fjögurra ára gömul börn geti gefið áreiðanlegar upplýsingar hafi þau verið beitt ofbeldi en það skipti miklu máli hvernig það er gert.

Þá sagði hann að rannsóknir hans bentu til þess að sé viðtal framkvæmt á réttan hátt leiði það oftar til bæði ákæru og síðar sakfellingar, því upplýsingar sem fáist úr slíkum viðtölum séu góðar og áreiðanlegar.