Xi Jinping, forseti Kína, skammaði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, en atvikið náðist á myndband. The Guardian fjallar um málið, en leiðtogarnir eru báðir staddir á G20 fundinum í Indónesíu um þessar mundir.

Xi virðist ekki hafa verið sáttur með að upplýsingar frá fundi þeirra hafi lekið til fjölmiðla, hann sagði það vera óviðeigandi

„Allt sem við töluðum um hefur lekið til blaðanna, það er ekki viðeigandi. “ segir Xi við Trudeau með hjálp túlks. „Það var ekki þannig sem samtal okkar átti að fara,“ bætir hann við.

 „Í Kanada trúum við á frjáls og opin samtöl, og þannig munum við halda áfram,“ svarar Trudeau. „Við munum halda áfram að vinna saman, en við munum vera ósammála um suma hluti.“

Greint hafði verið frá því daginn áður að Trudeau hafði lýst yfir áhyggjum sínum yfir aukinni afskiptasemi Kína á heimsvísu.