Xi Jinping, forseti Kína, mun ferðast til Moskvu í næstu viku og funda með Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Kremlverjar segja alhliða samstarf og stefnumótun fyrir framtíðina verða rædda.
Stjórnvöld í Peking hafa boðist til að leiða friðarviðræður og hjálpa við að binda enda á stríðið í Úkraínu. Vestræn ríki hafa tekið vel í þá tillögu en hafa áhyggjur af því að Kínverjar færi Rússum vopn.
Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins segir Kína áfram munu hafa hlutlæga og sanngjarna afstöðu til stríðsins. Kínverjar vilji aðeins leika uppbyggilegt hlutverk.
Sumir pólitískir sérfræðingar segja meint hlutleysi Kínverja vera sýndarmennsku því stríðið éti upp vestrænar auðlindir og fjármagn.