Fjórir greindust með Covid-19 hér á landi síðastliðinn sólarhring og voru tveir í sóttkví við greiningu. Fjöldi smita fer lækkandi milli daga en alls greindust ellefu í gær.

Alls er nú 233 í einangrun með virkt smit á landinu og er það fækkun frá því í gær þegar 267 einstaklingar voru í einangrun.

Færri eru inniliggjandi á sjúkrahúsi en í gær eða 53 og fækkar því um tvo frá því í gær. Jafn margir eru þó á gjörgæslu eða fjórir talsins. Einn sjúklingur lést á Landspítalanum í gær.

Einn farþegi greindist á landamærum síðastliðinn sólarhring og bíður hann niðurstöðu mótefnamælingar.

Nú eru 348 í sóttkví og hafa því 36 einstaklingar losnað úr sóttkví síðastliðinn sólarhring. Einnig fækkar í skimunarsóttkví þar sem nú eru 816 miðað við 852 í gær.

Þríeykið fundar í dag

Nýjar reglur heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir tóku gildi í gær. Þá opnuðu hárgreiðslustofur og íþrótta- og æskulýðsstarf barna hófst á ný.

Upplýsingafundur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis hófst klukkan ellefu í á dag. Á fundinum munu þau Alma Möller, landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir fara yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19 faraldursins hér á landi. Upphaflega átti Víðir Reynisso, yfirlögregluþjónn, að sitja fundinn en hann meiddist á baki í dag og situr því hjá.

Fréttin hefur verið uppfærð.