Vegna bágrar lausafjárstöðu hefur WOW air neyðst til að slá á frest mótframlagsgreiðslum í lífeyris- og séreignarsparnað síðustu þrjá mánuði. Í svari frá Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, segir að gengið verði frá greiðslum í þessum mánuði.

„WOW air hefur verið í góðum samskiptum við lífeyris- og séreignarsjóði. Gengið verður frá greiðslum í þessum mánuði. Starfsfólk hefur verið upplýst um stöðuna,“ segir í svari Svanhvítar. Þar er enn fremur tekið fram að aðeins sé um tafir að ræða hvað varðar mótframlag vinnuveitanda. Ekki hafi orðið tafir á greiðslu hvað hlut starfsmanna varðar.

Um er að ræða greiðslur vegna nóvember og desember síðasta árs auk janúar þessa árs en þær eru allar komnar fram yfir eindaga. Gjalddagi vegna greiðslna febrúar er ekki runninn upp. Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist ekki greiðslur vegna mótframlags atvinnurekanda.

Staða WOW air hefur verið slæm undanfarið og fyrir áramót greip fyrirtækið til þess ráðs að segja upp um 350 starfsmönnum í hagræðingarskyni. Um skeið leit út fyrir að Icelandair myndi eignast félagið en undanfarið hafa staðið yfir samningaviðræður milli eigenda þess og Indigo Partners um kaup síðarnefnda aðilans á flugfélaginu. Áætlað var að þeim myndi ljúka í lok síðasta mánaðar en þann 28. febrúar barst tilkynning um að sá frestur yrði framlengdur til 29. mars. Þá skuldar WOW air ISAVIA einnig háar fjárhæðir vegna ýmissa gjalda. Í nýlegu svari samgönguráðherra við fyrirspurn segir að viðskiptakröfur að fjárhæð 1,7 milljarðar króna hafi verið komnar fram yfir gjalddaga árið 2017. Tölur fyrir 2018 liggja ekki fyrir. Ekki hefur verið gert opinbert hve stór hluti þeirra krafna er til kominn vegna WOW air.