WOW air verður endurreist af bandarísku athafnakonunni Michele Ballarin sem hefur náð samkomulagi við þrotabú hins fallna flugfélags. Búið er að tryggja flugfélaginu 85 milljóna dala fjármögnun og er áformað að fyrsta flugferðin verði í október.

Michele Ballarin, einnig þekkt sem Michele Roosevelt Edwards, stóð fyrir blaðamannafundi á Hótel Sögu í gær. Þar greindi hún frá því að endanlegt samkomulag hefði náðst milli félags hennar USAero­space Associates og skiptastjóra þrotabús WOW air um kaup félagsins á þeim eignum þrotabúsins sem tilheyra WOW-vörumerkinu. Kaupverðið er trúnaðarmál.

USAeropsace er bandarískt eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í fluggeiranum. Ballarin er stærsti hluthafi félagsins og stjórnarformaður. Hún verður einnig stjórnarformaður WOW air LLC. Félagið verður staðsett í Washington Dulles með aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og skrifstofu í Reykjavík.

Fyrsta flugið til Washington

WOW air mun hefja lággjaldaflugrekstur til Bandaríkjanna og Evrópu og er fyrsta flugið áformað milli Washington Dulles og Keflavíkur í október. Til að byrja með verða tvær flugvélar í flotanum en áætlanir félagsins gera ráð fyrir vaxandi umsvifum þegar líður á veturinn og að næsta sumar verði þær orðnar fjórar talsins.

„Við viljum byggja leiðakerfið upp hægt og rólega, fara á endanum upp í tíu eða tólf vélar og láta það duga,“ sagði Ballarin og bætti við að það væri arðbærasta stærð flugvélaflota. Þá gerir hún ráð fyrir að bæði Boeing-vélar og Airbus-vélar verði í flotanum.

Stjórnendateymi félagsins mun leggja mikla áherslu á vöruflutninga í starfseminni að sögn Ballarin. USAerospace búi yfir mikilli þekkingu á vöruflutningaflugi, bæði innanlands í Bandaríkjunum og á milli landa. „Frá fyrsta degi í vöruflutningunum, sem einnig munu hefjast á næstu vikum, munum við leggja mikinn metnað í vandaða þjónustu á sviði vöruflutninga með ferskt sjávarfang á Bandaríkjamarkað.“

Búið að tryggja 85 milljón dala fjármögnun

Ballarin sagði að búið væri að tryggja 85 milljóna dala fjármögnun, jafnvirði 10,7 milljarða króna, fyrir flugreksturinn, ásamt flugvélum. „Það þarf ekki svo mikið fjármagn til að endurvekja flugfélag. Hafið í huga að við erum ekki að byrja frá grunni,“ sagði Ballarin.

„Við erum fjárhagslega stöndug, þetta verður allt eigið fé og engar skuldir. Það eru engar skuldir í fyrirtækinu og við stefnum á að halda því þannig,“ sagði hún, spurð um fjármögnun félagsins.

Þó að hið endurreista flugfélag muni bera sama nafn og merki og WOW air gerði ásamt fjólubláa litnum þá hefur Ballarin sínar eigin hugmyndir um flugrekstur sem hún vill framkvæma. Á blaðamannafundinum kom fram í máli hennar að hún vildi bæta næringarinnihald matvæla sem væru seld um borð í vélum WOW air en Michelin-kokkur vinnur nú að því að útbúa matseðil flugfélagsins. Þá vill hún koma á fót setustofu fyrir farþega WOW air í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hefur hún rætt þær hugmyndir við Isavia.

Ballarin hefur áður greint frá því að hún hyggist fjárfesta í í húðvörunum Sóley Organics og Omnom. Spurð um fjárfestingar hennar hér á landi svaraði hún að fleiri verkefni væru í skoðun.