WOW air hefur aflýst flugi á milli Gatwick flugvallar í London og Keflavíkur sem fljúga átti seint í kvöld, að því er fram kemur í frétt RÚV. Flugi flugfélagsins frá London fyrr í dag var einnig aflýst.

Samkvæmt svörum frá Svanhvítu Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW, til RÚV varð því miður að fresta flugleiðum á milli London og Reykjavíkur í dag en engum flugum hefur hins vegar verið aflýst á morgun. Þannig lenti félagið til að mynda í vandræðum í dag þegar tvær vélar voru kyrrsettar af leigusalanum. 

Staða WOW air hefur verið í mikilli óvissu eftir að viðræður slitnuðu á milli Icelandair og WOW en bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa í dag rætt stöðuna. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur sagt að ekki standi til að ríkið hlaupi undir bagga með WOW air og hefur Katrín Jakobsdóttir tekið undir orð hans. Hún segir að gjaldþrot félagsins yrði mikið högg en efnahagslífið eigi þó að vera í stakk búið til að takast á við það.