Líkamsræktarstöðin World Class hefur sagt upp verktakasamningi Arnars Grant. Björn Leifsson, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar, segir að ákvörðunin hafi verið tekin í fyrradag eftir að hann var kærður fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífsins.

Vísir greinir frá þessu, en í frétt miðilsins er haft eftir Birni að fyrirtækið hafi það sem reglu að hafa ekki fólk í vinnu sem er með kæru í ferli.

„Við getum ekki verið að láta fyrirtækið dragast inn í þetta, þetta kemur okkur ekkert við,“

Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að Arnar og Vítalía Lazareva hefðu verið kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar. Líkt og alþjóð veit sakaði Vítalía þá Ara Edwald, Hreggvið Jónsson og Þórð Má Jóhannesson um kynferðisofbeldi, en það eru þeir þrír sem hafa kært Arnar og Vítalíu.

Í gær gaf Arnar Grant frá sér yfirlýsingu vegna málsins en þar vísaði hann umræddum ásökunum á bug og sagði þær vera tilraunir til að draga úr trúverðugleika sínum þar sem hann væri vitni í málinu. Áður hafði hann sagt frásögn Vítalíu ekki fjarri lagi.

„Ég vísa á bug aðdróttunum þar sem reynt er að bendla mig við fjárkúgun í tengslum við kynferðisafbrotamál. Þetta er fráleit tilraun til að afvegaleiða umræðuna og draga úr trúverðugleika mínum sem lykilvitni í málinu,“ sagði í yfirlýsingunni.“

Þá tjáði Vítalía sig um málið á samfélagsmiðlum í gærkvöldi, en þar baðst hún afsökunar á hafa brugðist öðrum þolendum.

Hún vísaði til þess að í mars hafi hún greint frá því að hún hafi lagt fram bréf til kærumóttöku kynferðisbrota en eins og hefur verið greint frá í vikunni þá hefur engin kæra verið formlega lögð fram. Hún segir að hún hafi ávallt haldið að það „þýddi eitthvað“ en að hún hafi ekki mætt í skýrslutöku og hafi aldrei haldið öðru fram.