Líkams­ræktar­keðjan World Class ætlar að opna stöð sína í Laugum á mið­nætti á sunnu­daginn. Líkams­ræktar­stöðvar fá að opna aftur þann 25. maí og ætlar World Class að fara sömu leið og margar sund­laugar landsins síðasta mánu­dag og opna á mið­nætti.

Aðrar stöðvar World Class munu þó ekki opna fyrr en á venju­legum opnunar­tíma á mánu­dags­morgun, flestar klukkan sex. Stöð World Class í Kringlunni mun reyndar einnig opna á mið­nætti en það er samkvæmt venju­legum opnunar­tíma því stöðin er opin allan sólar­hringinn.


World Class til­kynnti um fyrir­hugaða mið­næturopnun á Face­book rétt í þessu. Allar líkams­ræktar­stöðvar landsins hafa verið lokaðar frá 24. mars í sam­komu­banni vegna kórónu­veirufar­aldursins.


Björn Leifs­son, eig­andi World Class, lýsti yfir mikilli ó­á­nægju með það að líkams­ræktar­stöðvar fengju ekki að opna á sama tíma og sund­laugarnar en heil­brigðis­ráð­herra á­kvað að leyfa sund­laugum að opna fyrr en ætlað var.

Næsta skref í af­léttingu sam­komu­tak­markana verður tekið á mánu­daginn og verður þá ýmis þjónusta leyfð aftur; líkams­ræktar­stöðvar og skemmti­staðir opna til dæmis aftur. Þá verður leyfi­legur fjöldi þeirra sem koma saman færður úr 50 manns upp í 200.


Líkams­ræktar­stöðvar mega þó í fyrstu, líkt og sund­laugar, að­eins taka á móti helmingi þeirra gesta sem starfs­leyfi þeirra gerir ráð fyrir. Stefnt er að því að 1. júní verði fjöldinn hækkaður upp í 75 prósent af annars leyfi­legum fjölda gesta en að þann 15. júní verði hægt að hleypa eins mörgum inn og stöðvarnar mega hýsa undir venju­legum kring­um­stæðum.

MIÐNÆTUROPNUN🚨 Mánudaginn 25. maí opna allar 15 stöðvar World Class loksins aftur eftir að hafa verið lokaðar frá 24....

Posted by World Class Iceland on Friday, May 22, 2020