Sigurður Ingi Jóhannsson, verður nýr innviðaráðherra og Willum Þór Þórsson tekur við af Svandísi Svavarsdóttur í heilbrigðisráðuneytinu. Þetta tilkynnti Sigurður Ingi á Alþingi í dag eftir fund þingflokksins þar sem ráðherraefni flokksins voru samþykkt einróma.

Hann tilkynnti einnig að Lilja Dögg Alfreðsdóttir muni stýra nýju viðskipta- og menningarmálaráðuneyti og að Ásmundur Einar Daðason verði nýr skóla- og barnamálaráðherra.

Ingibjörg Isaksen verður þingflokksformaður Framsóknarflokksins og Stefán Stefánsson Vagn mun stýra mikilvægum nefndum en Sigurður Ingi sagði það munu skýrast betur eftir helgi.

„Framtíðin kallar á breytt stjórnkerfi,“ sagði Sigurður Ingi, nýr innviðaráðherra, og að þeirra svar við því væru þessu breytt ráðuneyti.

Hann segir að innan hans ráðuneytis verði verkefni samgöngu-og sveitarstjórna, eins og áður, en að við hans verkefnalista bætist húsnæðismál úr félagsmálaráðuneytinu og skipulagsmál úr umhverfisráðuneytinu.

Er þetta ekkert of stórt ráðuneyti?

„Nei, það þarf að samþætta þetta kerfi. Það er mikilvægt,“ sagði Sigurður Ingi á þingi í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ásmundur Einar verður nýr skóla- og barnamálaráðherra.
Fréttablaðið/Eyþór