Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað stjórn Landspítala til næstu tveggja ára.

Nýja stjórn skipa þau Björn Zoëga, Gunnar Einarsson, Höskuldur H. Ólafsson, Ingileif Jónsdóttir og Sólrún Kristjánsdóttir. Heilbrigðisráðherra segist sannfærður um að hin nýja stjórn styrki Landspítalann.

„Samsetning hennar endurspeglar þá breidd og þekkingu sem þarf til að styðja vel við spítalann í allri stefnumótun, rekstri og ákvarðanatöku. Það skilar sér svo í bættu starfsumhverfi, þjónustu og getu kerfisins til að takast á við framtíðaráskoranir,“ segir Willum Þór heilbrigðisráðherra.

Samhliða skipan stjórnar hefur heilbrigðisráðherra kallað eftir sjö tilnefningum fulltrúa í notendaráð frá sjúklingasamtökum, en slíkt ráð er nýmæli hér á landi.

Forstjórum og stjórnum heilbrigðisstofnana er nú gert að hafa samráð við notendaráð, til þess að tryggja að sjónarmið notenda séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku um atriði sem varða hagsmuni þeirra sjúklinga sem nýta sér þjónustu heilbrigðisstofnana.