Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin (WHO) hefur kallað eftir tíma­bundinni stöðvun á örvunar­skömmtum af bólu­efnum gegn kóróna­veirunni þar til loka septem­ber til að stemma stigu við hinum gríðar­lega mis­mun sem hefur myndast á bólu­efna­birgðum efnaðra og efna­minni landa.

The New York Times greinir frá.

„Ég geri mér grein fyrir því að allar ríkis­stjórnir vilji vernda þegna sína gegn Delta af­brigðinu. En við getum ekki – og við ættum ekki – að sam­þykkja að lönd sem hafa þegar notað næstum allar bólu­efna­birgðir heimsins noti enn meira bólu­efni, á meðan við­kvæmustu þjóðir heims eru enn varnar­lausar,“ segir í yfir­lýsingu frá Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, for­stjóra Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar.

80 prósent af þeim rúm­lega 4 milljörðum bólu­efna­skammta sem hafa verið gefnir í heiminum hafa farið til fólks í há­tekju- og efri-mið­stéttar­löndum, sem eru þó innan við helmingur af í­búa­fjölda heimsins, segir Dr. Tedros. Há­tekju­lönd hafa gefið næstum 100 bólu­efna­skammta fyrir hverja 100 íbúa, á meðan lág­tekju­lönd hafa að­eins gefið um 1,5 skammta fyrir hverja 100 íbúa vegna skorts á bólu­efni.

„Við þurfum brýnan við­snúning, frá því að meiri­hluti bólu­efna fari til há­tekju­landa, þannig að meiri­hluti þeirra fari til lág­tekju­landa,“ segir hann.

Afríkuríki aðeins gefið 5 skammta fyrir hverja 100 íbúa

Á sama tíma og deilurnar um örvunar­skammta hafa aukist hafa mann­réttinda­sam­tök þrýst á sið­ferðis­legt og vísinda­legt mikil­vægi þess að gefa bólu­efna­skammta til við­kvæmra hópa í fá­tækari löndum. Afríku­ríki hafa til að mynda að­eins gefið 5 skammta fyrir hverja 100 íbúa, saman­borið við 88 skammta fyrir hverja 100 íbúa í Evrópu og 85 í Norður-Ameríku.

Dauðs­föll vegna Co­vid hafa aukist til muna í Afríku­ríkjum undan­farna mánuði og hafa sumir hópar á borð við heil­brigðis­starfs­menn og aldraða verið skildir eftir óbólu­settir og varnar­lausir. Þá hefur mikil­vægi bólu­setninga að­eins orðið brýnna vegna þeirrar hættu sem skapast hefur vegna Delta af­brigðisins.

Að sögn Dr. Tedros er þessi staða ó­á­sættan­leg fyrir þær milljónir óbólu­settra ein­stak­linga sem eiga ekki kost á að dvelja heima hjá sér og eru út­sett fyrir smiti, á meðan fólk í efna­meiri löndum gefst kostur á örvunar­skömmtum.

Vísinda­menn hafa enn ekki sam­mælst um það hvort örvunar­skammtar séu nauð­syn­legir en þó hafa ýmis Vest­ræn þegar byrjað að bólu­setja á­kveðna hópa með slíkum skömmtun, þar á meðal Ís­land. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, greindi til að mynda frá því á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í síðustu viku að allir þeir sem fengu bólu­setningu með bóluefni Jans­sen muni fá örvunar­skammt.