Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin, WHO, hefur mælt með bólu­efninu sem var þróað af AstraZene­ca og Ox­ford há­skóla og segir stofnunin að einnig sé hægt að nota bólu­efnið í löndum þar sem ný af­brigði veirunnar hafa komið upp og meðal ein­stak­linga eldri en 65 ára.

Mikil um­ræða hefur myndast í kringum bólu­efnið síðast­liðnar vikur eftir að þýsk yfir­völd sögðust ekki mæla með því að bólu­efnið færi til eldri ein­stak­linga þar sem rann­sóknir hafi ekki sýnt nægi­lega vel hver virknin er meðal þeirra. Þá kom í ljós fyrr í vikunni að bólu­efnið veiti litla sem enga vernd gegn nýju af­brigði veirunnar, sem var fyrst vart í Suður-Afríku.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hefur sér­fræðinga­nefnd WHO verið að fara yfir niður­stöður rann­sóknanna og komust þeir að þeirri niður­stöðu í dag að bólu­efnið væri öruggt. Engin á­stæða væri því til að mæla gegn notkun bólu­efnisins, jafn­vel í löndum þar sem önnur af­brigði eru skæð.

Breytir engu fyrir Íslendinga

Bólu­efni AstraZene­ca hefur nú verið sam­þykkt víðs vegar um heim, þar á meðal hér á Ís­landi þar sem von er á hátt í 14 þúsund skömmtum í mánuðinum, en Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir greindi frá því í síðustu viku að eldri ein­staklingar yrðu ekki bólu­settir með bólu­efninu hér á landi.

Í sam­tali við RÚV í dag segir Þór­ólfur að niður­staða sér­fræðinga­nefndar WHO breyti ekki þeirri á­kvörðun.