Tedros Adhanom, forstjóri Alþjóðheilbrigðismálastofnunar (WHO), segir hið versta í kórónaveirufaraldrinum enn ekki yfirstaðið. Þetta sagði hann á blaðamannafundi WHO í dag og greint er frá þessu á vef BBC.

WHO segir enn langt í land í að útrýma COVID-19. Verið sé að vinna að bóluefni en þangað til muni veiran halda áfram að breiða úr sér. Misvel hefur gengið í löndum að sporna við dreifingu veirunnar. Í Bandaríkjunum og Brasilíu er staðan enn grafalvarleg og hefur þeim ekki tekist að fletja út kúrfuna.

Á morgun eru sex mánuðir liðnir frá því að WHO frétti fyrst af þyrpingu tilfella af lungnabólgu vegna óþekktrar veiru í Kína.

„Nú er tími fyrir okkur til að líta til baka og skoða framför okkar og þá lærdóma sem við drögum af reynslu okkar,“ sagði forstjórinn á blaðamannafundinum.

Hann sagði að fyrir sex mánuðum hefðum við aldrei geta séð fyrir hvernig heimurinn myndi breytast vegna þessarar veiru. „Þessi veira hefur dregið fram það besta og það versta í mannkyninu.“

Adhanom sagði að þjóðarleiðtogar gætu ekki bara beðið eftir bólefni. Mikilvægt væri að fylgja fimm reglum WHO: Samskiptafjarlægð, handþvottur, hósta ekki framan í fólk, halda sig heima ef einkenni koma upp og nota andlitsgrímur ef það á við. Mikilvægt væri að deila upplýsingum frá áreiðanlegum miðlum eins og WHO.