Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, er sökuð um að stinga undir stól skýrslu um viðbrögð Ítala við COVID-19 faraldrinum þegar hann kom upp í vor. Skýrslan var birt á vefsvæði WHO þann 13. maí en fjarlægð degi síðar. Samkvæmt fréttaritara breska blaðsins The Guardian í Róm var það að undirlagi Ítalans Ranieri Guerra, sem er háttsettur innan WHO og í ítalska COVID-19 viðbragðsteyminu.

Skýrslan var gerð af Francesco Zambon, vísindamanni WHO, og tíu samstarfsmönnum hans og fjármögnuð af ríkisstjórn Kúveit. Tilgangurinn var að veita ríkjum sem enn höfðu ekki lent í faraldrinum upplýsingar.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að faraldursviðbrögð ítalska heilbrigðisráðuneytisins höfðu ekki verið uppfærð í fjórtán ár og að viðbrögð spítalanna hafi verið fálmkennd og óskipulögð. Ítalía var fyrsta Evrópulandið sem lenti illa í faraldrinum og spítalarnir réðu ekki við ástandið. Bárust fregnir af því að vísa hefði þurft sjúku fólki frá og það látist heima hjá sér.

Áðurnefndur Guerra hafði yfirumsjón með faraldursmálum innan ítalska heilbrigðisráðuneytisins árin 2014 til 2017 og hefði átt að framfylgja tilskipunum og uppfærslum WHO og Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar, ECDC.

Nú stendur yfir sakamálarannsókn í borginni Bergamo á norðurhluta Ítalíu á viðbrögðum stjórnvalda við faraldrinum. Þar varð faraldurinn hvað verstur í öllu landinu. Umrædd skýrsla er lykilgagn í rannsókninni. Önnur skýrsla, gerð af fyrrverandi herforingjanum Pier Paolo Lunelli, segir að tíu þúsund dauðsföll á Ítalíu megi rekja til lélegra viðbragðsáætlana. Alls hafa nú yfir 60 þúsund Ítalir látist í faraldrinum.

Saksóknarar í Bergamo yfirheyrðu Zambon í byrjun nóvember. Í tvígang hefur WHO hindrað yfirheyrslur yfir Zambon, sem er búsettur í Vín, og samstarfsmönnum hans og vísað til þess að vísindamennirnir eigi að njóta friðhelgi frá vitnaleiðslum.

Zambon hefur sjálfur sagt að hann vilji vitna um skýrsluna en WHO leyfi honum það ekki. Einnig að Guerra hafi hótað honum starfsmissi nema hann mildaði orðalagið um viðbragðsáætlanirnar.