Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin (WHO) hefur gagn­rýnt fyrir­ætlanir Evrópu­sam­bandsins um út­flutnings­hömlur á bólu­efni sem fram­leitt er innan ríkja sam­bandsins. Stofnunin segir að slíkar að­gerðir gætu orðið til þess að far­aldurinn dragist á langinn.

Fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins sam­þykkti nýjar reglur um út­flutnings­hömlur í gær sem heimila ríkjum sam­bandsins að banna út­flutning á bólu­efni og hrá­efni bólu­efna til ríkja fyrir utan sam­bandið ef fram­leiðandi bólu­efnisins hefur ekki staðið við samninga sína við sam­bandið.

„Vernd og öryggi okkar borgara eru í al­gjörum for­gangi og vanda­málin sem við stöndum nú frammi fyrir gefa okkur ekki kost á öðru en að bregðast við,“ sagði í til­kynningu frá fram­kvæmda­stjórninni í gær.

Eins og greint hefur verið frá telur lyfja­fram­leiðandinn AstraZene­ca sig ekki geta staðið við um­saminn af­hendingar­tíma við Evrópu­sam­bandið vegna vanda sem kom upp í verk­smiðjum fram­leiðandans í Evrópu. Sam­bandið vill að fram­leiðandinn sendi þá bólu­efni úr verk­smiðjum sínum í Bret­landi og Banda­ríkjunum til Evrópu til að upp­fylla á­kvæði um af­hendingar­tíma í samningnum. AstraZene­ca hefur enn ekki gefið upp hvort það ætli að verða við þessu en búist er við að það komi í ljós næsta mánu­dag þegar fyrir­tækið fundar með sam­bandinu um stöðuna.

Skortur á siðferði

Að­stoðar­fram­kvæmda­stjóri WHO, Mariangela Si­mao, segir að þessi nýjasta á­kvörðun Evrópu­sam­bandsins valdi sér „miklum á­hyggjum“. Fram­kvæmda­stjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, hefur þá áður varað við því að þjóð­ernis­hyggja í tengslum við bólu­efni geti dregið far­aldurinn á langinn.

Hann segir að ef ríki fara að sanka að sér bólu­efni og vilja ekki deila því með öðrum haldi það far­aldrinum í fullum gangi í heiminum og hægi á bata efna­hags­kerfisins á heims­vísu. Þá kallaði hann þessa til­hneigingu ríkja „hörmu­legan skort á sið­ferði“ sem yki á ó­jöfnuð.