Dr. Margaret Har­ris, tals­maður Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunarinnar, telur að lokun landa­mæra og tak­mörkun ferða­laga eigi ekki eftir að skila til­ætluðum árangri þegar kemur að því að reyna að koma í veg fyrir að Ó­míkron-af­brigði Co­vid-19 sjúk­dómsins dreifi úr sér.

Þetta kom fram í viðtali við Harris á CNN í dag sem sjá má hér.

Nýjasta afbrigði Covid-19, Ómíkron afbrigðið breiðist út sem eldur í sinu um heimsbyggðina þessa dagana.

Á rúmri viku frá því að fyrsta smitið kom fram í Suður-Afríku er afbrigðið búið að ná fótfestu í öllum heimsálfum og að minnsta kosti þrjátíu löndum, þar á meðal Íslandi.

Anthony Fauci, einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í smitsjúkdómum og Covid-19 faraldrinum, ræddi á dögunum ákvörðun bandarískra stjórnvalda að koma á ferðatakmörkunum frá nokkrum löndum sem höfðu staðfest tilfelli af Ómíkron-afbrigðinu.

Fauci hafði orð á því að það væri þungbær ákvörðun að koma á ferðabanni að nýju og efaðist um að landinu yrði lokað á nýju. Harris tók í sömu strengi.

„Eins og Fauci sagði, þá er hægt að tefja faraldurinn í ákveðinn tíma með ferðabanni en það hefur sýnt sig og og sannað að það dugar ekki til að koma í veg fyrir að afbrigði kórónaveirunnar finni sér leið á milli landamæra. Líkurnar eru mun meiri að tilfelli af afbrigðunum séu búin að festa rætur þegar stjórnvöld taka slíkar ákvarðanir,“ sagði Harris og hélt áfram:

„Það má álykta að afbrigðið sé komið til mun fleiri landa en samkvæmt opinberum tölum. Það er bara spurning um sýnatökur.“

Harris sagði að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin væri því mótfallin því að lönd myndu skella í lás líkt og í upphafi kórónaveirufaraldursins.

„Áhrif lokunnar landamæra hefur skaðlegt áhrif á daglegt líf innan þessarra landa ásamt því að takmarka flutning á vörum sem eru nauðsynlegar í daglegu lífi.“

Fyrsta tilfellið af Ómíkron hér á landi var staðfest í gær og er nú talið að sjö einstaklingar að hið minnsta hafi greinst með afbrigðið hér á landi.

Von er á nýju minnisblaði frá Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnarlækni um helgina þegar núverandi sóttvarðaraðgerðir renna sitt skeið.

Þórólfur sagði í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 að hann ætti ekki von á að það yrðu neinar tilslakanir.

„Mér finnst nú ólíklegt ég muni leggja til að við slökum eitthvað mikið á því að við erum á þessum óvissutíma,“ sagði Þórólfur.