Róbert Wess­man, fram­kvæmda­stjóri Al­vogen og Al­vot­ech, segir í yfir­lýsingu að það sé frá­leitt að hann tengist inn­broti í bíl Reynis Trausta­sonar og á skrif­stofu Mann­lífs, sem Reynir rit­stýrir.

Hann segir að honum myndi aldrei detta í hug að beita þeim að­ferðum sem sé hermt upp á hann í fjöl­miðlum en Reynir Trausta­son hefu gefið í skyn að inn­brotið og á­rásin á vefinn tengist um­fjöllun þeirra um á­kveðinn auð­mann.

„Í gær var brotist inn á rit­stjórnar­skrif­stofu Mann­lífs. Ég vona svo sannar­lega að lög­reglan taki málið föstum tökum og nái þeim sem þetta gerðu sem allra fyrst. Á­rásir á fjöl­miðla eru að­för að lýð­ræðinu og eiga ekki að líðast,“ segir Róbert í til­kynningunni og að hann sé knúinn til að tjá sig um málið.

„Mér hefur þótt um­fjöllun Reynis Trausta­sonar og Mann­lífs um mig og þau fyrir­tæki sem ég stýri afar ó­vægin, ó­fag­leg og marg í­trekað ó­sönn. Ég hef í­trekað óskað eftir leið­réttingum á rang­færslum og að fá á­kveðin per­sónu­greinan­leg gögn af­hent. Hingað til hefur þó hvorki verið brugðist við óskum um leið­réttingar né af­hendingu gagna,“ segir Róbert í yfir­lýsingunni og að hann hafi kært um­fjöllun Reynis og Mann­lífs til Siða­nefndar Blaða­manna­fé­lags Ís­lands

„…því ég trúi því og treysti að þær leiðir sem fólk hefur til að verjast ó­sann­gjarni um­fjöllun sé í gegnum slíkt ferli þar sem bein sam­skipti hafa hingað til ekki dugað.“

Yfir­lýsinguna er hægt að sjá í heild sinni hér að neðan.

Í gær var brotist inn á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs. Ég vona svo sannarlega að lögreglan taki málið föstum tökum og nái þeim sem þetta gerðu sem allra fyrst. Árásir á fjölmiðla eru aðför að lýðræðinu og eiga ekki að líðast.

Ég er knúin til að tjá mig um málið þar sem að það hefur verið ýjað að því að ég hafi komið að þessu innbroti sem er fráleitt. Mér hefur þótt umfjöllun Reynis Traustasonar og Mannlífs um mig og þau fyrirtæki sem ég stýri afar óvægin, ófagleg og marg ítrekað ósönn. Ég hef ítrekað óskað eftir leiðréttingum á rangfærslum og að fá ákveðin persónugreinanleg gögn afhent. Hingað til hefur þó hvorki verið brugðist við óskum um leiðréttingar né afhendingu gagna.

Mér myndi aldrei koma í hug að beita nokkrum af þeim aðferðum sem nú er hermt upp á mig. Ég hef hins vegar kært umfjöllun Reynis og Mannlífs til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands því ég trúi því og treysti að þær leiðir sem fólk hefur til að verjast ósanngjarni umfjöllun sé í gegnum slíkt ferli þar sem bein samskipti hafa hingað til ekki dugað.

Ég vona að Reynir fái öll sín gögn aftur og að tjón hans verði bætt.