Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var rétt í þessu dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir að hafa neytt aðstoðarkonuna Miriam Haley til munnmaka og að nauðga annari konu, en nafn hennar hefur ekki verið getið. Alls voru sex konur sem báru vitni í réttarhöldunum gegn Weinstein en frá árinu 2017 hafa meira en 80 konur stigið fram og sakað fram­leiðandann um ýmis kyn­ferðis­brot. .

Kviðdómendur í máli Weinstein komust að þeirri niðurstöðu 24. febrúar síðastliðinn að sakfella framleiðandann í tveimur liðum en sýkna hann af hinum þremur. Þyngsta refsing sem Weinstein hefði getað hlotið fyrir brotin væri 29 ára fangelsi að því er kemur fram í frétt Guardian um málið.

Í yfirlýsingu sem Haley las upp fyrir dóminn sagði hún að Weinstein hafði ekki aðeins svipt sig reisn sinni heldur hafi hann einnig minnkað sjálfstraust hennar og þá trú sem hún hafði á sjálfri sér. „Það er kominn tími til að fólk sem nauðgar öðru fólki borgi fyrir það með sínu lífi og lífi þeirra sem það tók.“

Weinstein var fluttur á spítala einungis tveimur dögum eftir að hann var sakfelldur þegar flytja átti hann í Rikers fangelsið í New York. Hann var síðan fluttur í fangelsið síðastliðinn föstudag eftir að hafa dvalið á Bellevue spítalanum.

Hann verður nú fluttur til móttökustöðvar Fishkill þar sem úrvinnsla í máli hans hefst.

Fréttin hefur verið uppfærð.