Raphael Warnock, frambjóðandi Demókrata til öldungardeildar í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum hefur sigrað mótherja sinn Herschel Walker sem fram fór fyrir hönd Repúblikana.

Kjósa þurfti aftur í Georgíu þar sem of mjótt var á munum í fyrri kosningunni sem fram fór snemma í nóvember. Hvorugur frambjóðandi náði að tryggja sér 50 prósent af atkvæðum og þurfti því að boða til auka kosninga.

Með sigrinum hafa Demókratar tryggt sér 51 sæti á móti 49 sætum Repúblikana í öldungardeildinni en það mun hafa gríðarleg áhrif á það sem eftir er af valdatíð Joe Biden, Bandaríkjaforseta.

Þingflokkur Demókrata hefur með þessu hreinan meirihluta sem krefst ekki eins mikillar aðkomu frá varaforseta Bandaríkjanna, Kamölu Harris til þess að skera úr um jafntefli í atkvæðafjölda innan þingsins.

Ósigur Walker er ekki einungis ósigur fyrir Repúblikana heldur hefur hann einnig mikla þýðingu fyrir Donald Trump, fyrrum bandaríkjaforseta en Walker var frambjóðandi sem hann sjálfur hafði stutt við. Fjöldamargir af þeim frambjóðendum sem Trump hafði lýst yfir stuðningi við töpuðu sínum kosningum sem er til marks um dvínandi áhrif Trump í Bandarískum stjórnmálum.

Repúblikanar náðu að tryggja sér nauman meirihluta í fulltrúadeild þingsins með 221 sæti á mót 213 sætum Demókrata.

„Eftir harða kosningabaráttu, eða ætti ég að segja baráttur, þá er það heiður minn að segja þrjú kraftmestu orð sem sögð hafa verið í lýðræðissamfélagi: Fólkið hefur talað,“ sagði Warnock við stuðningsmenn sýna þegar ljóst varð að hann hefði sigrað kosningarnar.