Verslunar­keðjan Wal­mart til­kynnti starfs­fólki í dag að þau ætli sér að hætta sölu raf­rettna og tengdra vara í verslunum sínum í Banda­ríkjunum. Á­stæðan er sögð vaxandi á­hyggjur af aukinni notkun ung­menna á slíkum sígarettum, tengdum til­fellum lungna­sjúk­dóma og dauðs­falla sem eru talin tengjast notkun raf­retta.

Frá því er greint á Reu­ters að í minnis­blaði fyrir­tækisins, sem þau hafi í sínum fórum, komi fram að vaxandi á­hyggjur yfir­valda og flókið reglu­verk sé á­stæða þess að verslunar­keðjan hætti sölunni.

Á­kvörðunin er tekin stuttu eftir að til­kynnt var að bragð­bættir vökvar í raf­rettur verða bannaðir í New York og Michigan og eftir að til­kynnt var um á­ætlanir ríkis­stjórnar Trump að fjar­lægja slíka vökva úr hillum verslana vegna þess að slíkir vökvar hefðu leitt til nikó­tín­fíknar milljóna barna.

For­seti Banda­ríkjanna, og aðrir banda­rískir em­bættis­menn, hafa lýst yfir á­hyggjum um aukna notkun á slíkum vörum sam­hliða því að heil­brigðis­starfs­menn rann­saki á­hrif þeirra.

Einn mögu­legur söku­dólgur heilsu­tengdra vanda­mála sem hafa komið upp í tengslum við reykingar raf­sígarettna er raf­rettu­lína sem inni­heldur marijúana, „Dank Vapes“ og „Chronic Carts“. Í New York hefur heil­brigðis­eftir­litið komist að því að vörur þeirra inni­halda e-víta­míns ediks­sýru, sem er þykkingar­efni í THC olíu. Rann­sókn heil­brigðis­yfir­valda hefur að miklu leyti ein­blínt á þetta efni.

Aðrir aðilar á markaði, sem eru taldir leiðandi, svo sem Juul Labs Inc, British American Tobacco Plc og Imperial Brands Plc hafa greint frá því að þeirra vörur inni­halda ekki þykkingar­efnið.

Greint er frá á Reu­ters.