Andrei Medvedev, fyrrverandi liðsforingi í hinum alræmda rússneska Wagner-hópi, hefur sótt um hæli í Noregi. Andrei segist hafa lagt á flótta eftir að hann neitaði að framlengja samning sinn við hópinn. Málaliðar Wagner-hópsins hafa meðal annars haft sig í frammi í stríðinu í Úkraínu.
CNN greinir meðal annars frá þessu.
Medvedev segir að liðsmenn Wagner-hópsins séu ekkert nema fallbyssufóður í stríðsátökunum í Úkraínu. Hann neitaði að framlengja samning sinn meðal annars í því ljósi og óttaðist að verða tekinn af lífi líkt og kollegi hans, Yevgeny Nuzhin. Nuzhin var barinn til dauða með sleggju af öðrum liðsmönnum Wagner-hópsins vegna gruns um að hann hefði hlaupist undan merkjum.
Norsk yfirvöld hafa staðfest við CNN að Medvedev sé í Noregi og hafi sóst eftir hæli í landinu.