Volkswagen kynnti nýlega enn einn vélarkostinn í hinn tiltölulega nýja Touareg jeppa sinn og það er ekki vél af aflminna taginu. Þessi vél er sú sama og finna má undir húddinu á Audi SQ7, þ.e. V8 TDI vélina sem skilar 416 hestöflum til allra hjóla bílsins. Þessi vél togar heil ósköp, eða 900 Nm og gerir þessum stóra bíl kleift að taka sprettinn í hundraðið á litlum 4,9 sekúndum sem er fáheyrt á meðal jeppa. 

Hámarkshraði jeppans er rafrænt takmarkaður við 250 km/klst og því kemst hann í raun enn hraðar. Þó svo að dísilvélin í Touareg sé ansi öflug skilar hún fleiri hestöflum í Audi SQ7 bílnum, eða 429 hestöflum. Enda hvernig mætti það vera að Volkswagen jeppi fái öflugri vél en í flaggskipi frá Audi? Sala á VW Touareg V8 TDI hefst í maí á þessu ári.