Volkswagen ætlar að bjóða litla T-Roc jepplinginn í kraftaútfærslu og fær hann stafinn R í endann, en 300 hestöfl verða undir húddið. Volkswagen hefur ekki útbúið jeppa eða jeppling í R-útfærslu síðan Touareg R50 var og hét. Volkswagen T-Roc R verður einskonar Golf R á stultum og jafn rammur að afli, enda fær hann sömu forþjöppudrifnu 2,0 lítra TSI vélina og með sama öskrandi 400 Nm toginu. Þetta afl dugar T-Roc R að taka sprettinn í hundraðið á 4,9 sekúndum og hámarkshraðinn verður rafrænt takmarkaður við 250 km hraða. 

Bíllinn fær DSG tvíkúplings sjálfskiptinguna með 7 gírum og hann verður fjórhjóladrifinn eins og Golf R. Fyrir þá sem þora þá verður hægt að aftengja skrikvörn bílsins ef til dæmis á að drifta. VW T-Roc R fær líka pústkerfi frá Akrapovic úr títaníum-blöndu, 18 eða 19 tommu álfelgur, stífari fjöðrun en í hefðbundnum T-Roc og bíllinn situr lægra á vegi. Volkswagen ætlar að sýna VW T-Roc R á bílasýningunni í Genf sem hefst 7. mars og hann mun síðan fást til kaups á síðari hluta ársins.