Bíllinn verður á sama MEB-undirvagni og VW ID.4 og hefur því úr sömu rafhlöðum og rafmótorum að spila. Bíllinn verður einnig smíðaður í verksmiðju Volkswagen í Zwickau í Þýskalandi þar sem ID.3 og ID.4 eru smíðaðir. Fyrsta útgáfa bílsins verður líklega með afturdrifi og 201 hestafls rafmótor með 77 kWst rafhlöðu. Hann er með betri loftmótstöðu en ID.4 og gæti því haft aðeins meira drægi en þá 500 km sem hann er gefinn upp fyrir. Aflmesta útgáfan verður GTX-bíll með tveimur rafmótorum og fjórhjóladrifi líkt og Skoda Enyaq vRS. Sú útgáfa er 302 hestöfl og 6,2 sekúndur í hundraðið. Líkt og í ID.4 má búast við grunnútgáfu á síðari stigum með 52 kWst rafhlöðu og 146 hestafla rafmótor, og 77 kWst rafhlaðan gæti einnig verið tengd við 177 hestafla rafmótor.

Afturendinn er nokkuð líkur ID.Grozz og ætti að minnka farangursrýmið um 100 lítra frá ID.4.

Myndirnar af bílnum sýna að hann líkist nokkuð ID.Grozz tilraunabílnum frá bílasýningunni í Frankfurt árið 2017. Meðal þess sem þekkja má þaðan er afturhallandi innrammaður afturgluggi ásamt vindskeið. Hann er þó ekki með rennihurðirnar frá tilraunabílnum. Að framan er hann mjög svipaður ID.4 með nánast eins framljósum og alveg eins stuðara. Þótt það sjáist ekki vel á myndunum er mælaborðið það sama og í ID.4 enda breyting á því algjör óþarfi. Búast má við aðeins minna plássi í ID.5 en í ID.4 og sérstaklega í farangursrými, en það ætti að vera allt að 100 lítrum minna en 543 lítra farangursrýmið í ID.4.