Bíllinn er kallaður Ruggdzz í höfuðstöðvum Volkswagen í Wolfsburg og verður 4.600 mm langur í hefðbundinni útfærslu en hægt verður að hafa bílinn lengri eða styttri eftir aðstæðum. Þó að bíllinn sé enn á þróunarstigi verður hann hluti af 30 jepplingum VW sem í boði verða um miðjan áratuginn og mun fara í framleiðslu 2023 ef ekkert breytist. ID Buzz verður settur í framleiðslu á næsta ári eins og fram hefur komið en VW hefur ekki staðfest enn að það sama verði gert fyrir ID Buggy, sem byggður er á Buggy bílnum. Þessir þrír bílar eru hannaðir af Klaus Bischoff sem nýlega var ráðinn hönnunarstjóri Volkswagen.

Að sögn þeirra sem séð hafa hönnunarútgáfur Ruggdzz bílsins er hann mjög ólíkur ID.4, með beinni línum. Húddið verður lárétt og framrúðan talsvert lóðrétt, hann verður einnig með gervigrilli og kassalaga ljósum. Efri hluti farþegarýmis verður í glerlíki þar sem C-biti verður nánast gagnsær með svipuðu yfirborði og gluggar bílsins. Búast má við stærri sjö sæta útgáfu fyrir markaði í Kína og NorðurAmeríku. Einnig verða sérstakar útgáfur í boði eins og torfæruútgáfa með hærri veghæð og aukaljósum svo eitthvað sé nefnt. Líklegast verður bíllinn með tveimur rafmótorum eins og ID.4 með möguleika á að dreifa átaki á milli hjóla fyrir meira veggrip. Þar sem undirvagninn er svokallaður MEB-undirvagn munu svipaðar útgáfur frá Skoda og Seat vera á teikniborðinu líka og koma á markað í kjölfarið.

Það verður spennandi að sjá hvort að ID Buggy fari einnig í framleiðslu.