Smíði og sala smábíla hefur hingað til verið nokkuð ábótasöm fyrir bílaframleiðendur og smábílar eru 8% bílamarkaðarins í Evrópu. Nú er hinsvegar afrakstur af smíði smábíla orðinn afar lítill sökum síhertra mengunarregla og kröfu um sífellt meiri tækni- og öryggisbúnað í þessa bíla. Forstjóri Volkswagen, Herbert Diess, hefur kvartað sáran undan þeim ströngu mengunarreglum sem taka munu gildi árið 2020 og að með þeim muni verð á smábílum helst að þurfu að hækka um 3.500 evrur, eða um tæplega hálfa milljón króna. Það er mikið í tilfelli bíla sem hingað til hafa verið á verði vel undir 2 milljónir króna. Hann tók sem dæmi Volkswagen Up! Bílinn sem nú kostar um 11.000 evrur en þyrfti að kosta 14.500 evrur. 

PSA Group sem smíðar Peugeot og Citroën bíla og sína minnstu bíla í formi Peugeot 108 og Citroën C1 er að hugleiða að hætta smíði þeirra. Þeir hafa hingað til verið smíðaðir í samstarfi við Toyota í verksmiðju Toyota í Tékklandi. Toyota ætlar bráðlega að smíða eingöngu eigin bíla þar og fyrir vikið er líklegt að PSA muni hætta smíði þessara tveggja smábíla, bæði vegna þessarar ráðstöfunar og af sömu ástæðu og Volkswagen, þ.e. vegna þess að þeir verða alltof dýrir. Það gæti því fækkað framboðinu á smábílum á næstunni.