Hafin er forsala á bílnum í Evrópu og þá einnig á Íslandi, en verðið á bílnum byrjar í 6.990.000 kr. „Mikið hefur verið kallað eftir fjórhjóladrifnum alrafmögnuðum fjölskyldubílum á góðu verði og er það okkur sönn ánægja að geta nú uppfyllt þær óskir,“ sagði Jóhann Ingi Magnússon, vörumerkjastjóri Volkswagen á Íslandi, við þetta tækifæri og bætti við að fyrstu bílarnir verði afhentir nýjum eigendum í sumar en á næstu vikum muni Volkswagen á Íslandi þó fá fjórhjóladrifinn sýningarbíl. Þangað til er hægt að prófa ID.4 sem er nú þegar í sölu.

Líkt og ID.4 byggir hann á sömu MEB botnplötu en til viðbótar við 201 hestafls rafmótor við afturdrifið er kominn auka mótor við framdrifið svo að afl bílsins stekkur í 295 hestöfl. Að sögn Volkswagen dugar það til að senda bílinn í hundraðið á 6,2 sekúndum. Það er álíka hröðun og í núverandi gerð Golf GTI, sem er mun minni og léttari bíll. Reyndar er hámarkshraði ID.4 GTX mun minni, en hann er takmarkaður við 180 km á klst. til að auka drægi bílsins. Hægt er að fá bílinn með sérstökum sport-pakka en þá kemur hann á lægri fjöðrun og ákveðnara stýri, auk stillanlegrar fjöðrunar í dýrustu útgáfum.

GTX er með sömu 77 kWst rafhlöðu og Pro Performance-útgáfan sem við prófuðum á dögunum. Vegna auka rafmótors minnkar drægið aðeins þótt annað, eins og hleðslutími, haldist óbreytt. Útlitslega aðgreinir bíllinn sig með baklýsingu í framstuðara ásamt sportlegri stuðurum og 20 tommu álfelgum. Að innan takmarkast breytingarnar við hefðbundnar sportútgáfur, með álpedölum, rauðum ísaumi, sportsætum og sportstýri.