Orðrómur um að Volkswagen hyggist smíða Shooting Brake bíl byggðan á stóra Arteon fólksbílnum hefur verið uppi allt frá því seint á árinu 2016. Nú virðist sem raddir frá höfuðstöðvum Volkswagen staðfesti loksins tilkomu hans. Hann verður smíðaður í verksmiðju VW í Emden í Þýskalandi. Þar sem Volkswagen hefur ákveðið að flytja framleiðslu Passat bílsins frá Emden til verksmiðju Skoda í Tékklandi hefur myndast pláss til framleiðslu Arteon Shooting Brake bíls í Emden. 

Þegar talað er um Shooting Brake bíla er átt við langbaka með hallandi afturenda og hafa slíkir bílar mjög átt upp á pallborðið undanfarið og þykja laglegir. Líklegt er að í nýjum Arteon Shooting Brake verði ný 6 strokka vél með forþjöppu í bílnum, en hún er víst talsvert öflugri en 276 hestrafla og fjöggurra strokka vél sem er nú sú öflugasta í Arteon. Því gæti þessi nýi bíll orðið einskonar flaggskip fólksbílaflota Volkswagen.