Félagsmenn VR samþykktu í dag nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda.
Atkvæðagreiðslan hófst 14. desember og lauk í hádeginu.
Félagar Rafiðnaðarsambandsins samþykktu einnig samninginn. Um 77% sveina samþykktu samninginn, 73% tæknifólks og 88% félaga Grafíu.
Metþátttaka
Um 82% þátttakenda greiddu atkvæði með samningnum og segir Ragnar Þór Ingólfsson að um metþáttöku sé að ræða. Hvers vegna svo mikil þátttaka var í kosningunni segir Ragnar eflaust skýrast af þeirri miklu athygli sem samningsferlið fékk.
„Ætli það sé ekki bara mikil umræða og athygli sem samningarnir og viðræðurnar fengu,“ segir Ragnar „Ég held að þetta sé, eins og hjá okkur í VR, frekar svona stígandi þátttaka. Þetta er í raun bara mjög ánægjulegt þar sem stóra viðfangsefnið hjá okkur er að auka þátttöku og áhuga fólks á okkar starfi og verklýðsmálum.“
Ragnar Þór segir mikla þátttöku ávallt jákvæða og er því gríðarlega sáttur við þessa aukningu.
„Þetta er umtalsverð aukning frá þeirri þáttöku sem var í lífskjarasamningunum. Félagið er töluvert fjölmennara heldur en þá svo þetta er mjög jákvætt og niðurstaðan mjög afgerandi. Það er það sem skiptir máli,“ segir Ragnar Þór
Strax í næsta samning
Þar sem um skammtímasamning er að ræða segir Ragnar Þór að viðræður um langtímasamning hefjist strax á næsta ári.
„Það er tímasett plan sem er hluti af þessum skammtímasamningi að hefja strax viðræður,“ segir hann og bætir við „Þar verða fjölmörg kröfuatrið sem voru í okkar kröfugerð sem komu ekki inn í þennan samning núna. Þannig þurfum við ekki að endurnýja kröfugerðina heldur verður þetta í raun brú yfir í næsta samning sem hafist verður handa við að gera strax eftir áramót.“
Ekki sáttur við ákveðin atriði
Nokkuð bar á því að Ragnar Þór væri ekki fyllilega sáttur við þann samning sem kosið var um í dag.
„Er maður nokkurn tímann fyllilega sáttur þegar við erum að vinna á þessum vettvangi?“ spyr Ragnar á móti en hann telur að vantað hafi ákveðin atriði í samninginn sem sneru að öðru en atvinnulífinu.
„Það voru þarna atriði sem ég var verulega ósáttur við sem sneru ekki að launaliðnum eða slíku heldur aðgerðum á leigumarkaði. Sömuleiðis skort á aðgerðum sem grípa þá hópa sem festu ekki vexti á húsnæðislánum og er núna með stökkbreytt lán. Þar hafa afborganir hækkað um 70 til 80 þúsund eða jafnvel meira,“ segir Ragnar Þór sem telur að þörf sé á frekari aðgerðum í næstu samningum.
„Við náum ekki utan um þessa hópa með kjarasamningi eða einhverjum svona plástrum stjórnvalda. Þegar maður horfir til dæmis á húsaleigubætur að hækkun þeirra rennur beint í vasa leigufélaganna,“ segir Ragnar Þór og bendir einnig á gríðarlega aukningu í vaxtatekjum bankanna.
„Síðan eru bankarnir að skila ótrúlegri afkomu. Ég held að hreinar vaxtatekjur séu að aukast núna um 25 millljarða á milli ára. Þarna verða stjórnvöld einfaldlega að grípa inni í og það voru þessi atriði og fleiri sem kosta atvinnulífið ekki neitt sem ég vildi fá inn í samninginn og hefði viljað fá og vil ennþá,“ segir Ragnar Þór að lokum.
Fréttin var uppfærð 15:49 eftir að Fréttastofa náði tali af Ragnari Þór Ingólfssyni.