„Nei, við munum ekki slíta viðræðum, það hefur verið samþykkt að við mætum á fund næsta þriðjudag,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, sem situr í samninganefnd Starfsgreinasambandsins.

Landssamband íslenskra verslunarmanna hefur einnig tekið ákvörðun um að halda áfram viðræðum. Virðist VR því eitt á báti með þá ákvörðun að slíta viðræðum vegna kjarasamninga.

Björn segist aðspurður telja að VR eigi aftur endurkomu ef aðstæður spilist þannig. „En við erum ekkert á leiðinni út.“

Björn segist bjartsýnn á meðan viðræður séu í gangi. Boðað hefur verið til næsta fundar með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara næsta þriðjudag.

„Á meðan viðræðum er ekki slitið er von um að þetta klárist,“ segir Björn.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í gær óásættanlegt hvernig samninganefnd Samtaka atvinnulífsins hefði viljað nálgast skammtímasamning í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði.

„Viðræður hafa þokast í rétta átt síðustu daga en nú er ljóst að forsendur fyrir áframhaldandi samtali eru brostnar,“ segir í yfirlýsingu frá VR.