Tekjuaukning nýsköpunarfyrirtækisins Controlant á þessu ári er sem næst hundrað prósent. Stefnt er á hlutafjárútboð félagsins á næsta ári.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi sem forráðamenn Controlant sendu hluthöfum félagsins í gærdag, en þar er líka lögð áhersla á hvað viðskiptavinum þess hefur fjölgað mikið í ár.

Viðskiptasaga fyrirtækisins, sem einbeitir sér að dreifingartækni á milli landa og heimsálfa, meðal annars á lyfjum og lækningavörum, hefur verið ævintýri líkust frá því það var stofnað árið 2007, en hjá fyrirtækinu starfa nú á fimmta hundrað manns í fimm löndum.

Miklu veldur um vöxtinn á síðustu árum að Controlant annaðist dreifingu á bóluefnum fyrir lyfjarisann Pfizer á tímum Covid-heimsfaraldursins, en það sést best á því að velta fyrirtækisins jókst um 929 prósent á milli áranna 2020 og 2021 þegar veltan fór úr 865 milljónum króna í 8,9 milljarða króna.