Vöruviðskipti voru óhagstæð um tólf milljarða í febrúar síðastliðnum þegar fluttar voru út vörur fyrir 52,6 milljarða króna og inn fyrir 64,5 milljarða. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Verðmæti vöruútflutnings í febrúar jókst um 6,5 milljarða sé miðað við sama mánuð árið á undan. Verðmæti vöruinnflutnings jókst um rúma níu milljarða í febrúar á þessu ári samanborið við í fyrra.

Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var tæplega 780 milljarðar króna og lækkaði um 22,9 milljarða miðað við tólf mánuði þar á undan. Mestu munar um samdrátt í innflutningi á eldsneyti.