Fannar Jónsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir íbúa taka jarðskjálftahrinunni sem hófst í gær með jafnaðargeði.

„Þetta eru aðallega vonbrigði, óþægilegt að þetta skyldi taka sig upp núna. „Við vorum orðin góðu vön meðan að eldgosið stóð yfir,“ segir Fannar í samtali við Fréttablaðið.

„Nú þegar nýbúið er að lýsa yfir goslokum þá tekur þetta við, það eru ekki endilega góð skipti en svona er þetta bara,“ segir Fannar.

Inga Marín, íbúi í Grindavík, segist vona skjálftahrinan fjari út.

Íbúar vanir skjálftum

Fannar segir íbúa verða sérstaklega vara við skjálfta á nóttunni. Fólk virðist finna meira fyrir skjálftunum þegar það er útafliggjandi. Þá hafi skjálftarnir sem riðu yfir í morgun fundist mjög greinilega.

Fannar segist ekki hafa heyrt neitt um að munir eða húsgögn hafi færst til í skjálftunum. „Þetta er ekki stærra en það en svona drjúgur kippur allavega.“

Að sögn Fannars séu bæjarbúar orðnir ansi vanir eftir margra vikna jarðskjálftahrinu fyrir eldgosið í Fagradalsfjalli.

„Við erum ekki að kippa okkur mikið upp við þetta. En þetta er samt óþægilegt, sumum líður illa með þetta og aðrir kippa sér lítið upp við þetta,“ segir Fannar og bætir við að auðvitað séu allar áætlanir og viðbrögð tilbúin ef á þyrfti að halda.

Heppileg staðsetning

Að sögn Fannar eru jarðskjálftarnir núna í sama kvikugangi og var á sínum tíma. „Þannig séð er þetta bara endurtekning á því sem við fylgdumst með á árinu. Þetta er mjög heppilegur staður ef til þess skyldi koma að það færi að gjósa á ný.“

Aðspurður um tímasetningu nýrrar jarðskjálftahrinu segir Fannar hana óheppilega.

„Það er aldrei hægt að tala um að það sé góður tími fyrir svona lagað en þetta er eiginlega mjög óheppilegt nú í aðdraganda jólanna.“

Lífið gangi sinn vanagang

Fannar telur Grindvíkinga ekki vera hugsa sér til hreyfings vegna ástandsins síðastliðið ár. Þá sé mjög mikil eftirspurn eftir lóðum í bænum.

„Lífið gengur sinn vanagang hjá okkur og ekki margt sem hefur breyst annað en það að þetta sé óþægilegt á meðan þessu stendur,“ segir Fannar að lokum.

Með útsýni yfir gosið

Inga Marín býr á Suðurstrandarveginum beind á móti íþróttahúsinu í Grindavík og var með gott útsýni yfir gosið í Geldingadölum.

Inga vaknaði upp við stærstu skjálftana í nótt og segist strax hafa rifjað upp hvernig þetta var fyrir eldgosið.

„Þetta er ekki skemmtilegt, við finnum vel fyrir þessu,“ segir Inga. Hún segist hafa kíkt út um gluggann í nótt til að athuga hvort nýtt gos væri hafið. Fjölskyldan sé þó orðin ansi vön skjálftunum og hendist ekki á fætur við hvern skjálfta líkt og fyrir eldgosið.

Inga segir að á meðan upptök skjálftanna sé á svipuðu svæði og síðast, verði þetta allt í lagi.

Krakkar fljótir að aðlagast

Inga á þrjár stelpur, 11, 13 og 17 ára, aðspurð hvernig þær taki skjálftunum segir Inga mjög vel. „Krakkar eru svo fljótir að aðlagast öllu, þær eru ekkert hræddar eða neitt svoleiðis.

Maður er búinn að útskýra vel að það gerist ekkert. Þær þurfi að passa vel að ekkert detti á þær.“

Að sögn Ingu vonast hún til þess að skjálftarnir fjari út, þetta verði ekki eins og síðast.

„Ég held að fólk sé miklu rólegra núna. Þetta er óþægilegt en maður er ekkert hræddur.