Norskur maður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir að hafa orðið sambýliskonu sinni að bana, en hann hefur áður verið dæmdur fyrir fjölda ofbeldisbrota. VG greinir frá.
Morðið átti sér stað á heimili fólksins í Innlandet fylki í Noregi, en að sögn lögreglunnar í Grue höfðu þau búið saman í á annað ár. Konan, Lisa Iren Karlsen, fannst látin í stofunni þegar lögreglu bar að garði. Hún var nakin og illa útleikin, með sautján stungusár víðs vegar um líkamann, meðal annars á höfði og hálsi.
Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, var leiddur fyrir dómara í dag, en þar greindi hann frá sínum fyrstu kynnum af Lisu.
„Við hittumst í sundi í gegnum sameiginlegan kunningja sumarið 2021. Hún sagðist ekki hafa heyrt neitt jákvætt um mig,“ sagði hann. Engu að síður hafi hún ákveðið að gefa honum tækifæri.
„Mín upplifun er að hún hafi verið góð manneskja,“ sagði maðurinn.
Lýsti morðinu með nákvæmni
Maðurinn greindi nokkuð ítarlega frá málsatvikum þetta örlagaríka kvöld, en hann hefur játað að hafa orðið sambýliskonu sinni að bana. Komið hafi til átaka þeirra á milli sem hafi „gert hann brjálaðan.“
„Sjáðu hvað þú hefur látið mig gera núna. Nú er ég að verða brjálaður,“ kveðst morðinginn hafa sagt við Lísu við átökin. Þá lýsti hann með nokkurri nákvæmni hvernig hann varð henni að bana, en samkvæmt VG voru lýsingarnar einstaklega hrottafengnar.
Þá kveðst maðurinn hafa tekið upp símann sinn og tekið fjórar myndir af sambýliskonu sinni, þar sem hún lá í blóði sínu.
Játar sök
Aðstandendur Lisu voru viðstödd fyrirtökuna í dag, meðal annars móðir hennar. Hún segir það hafa verið einstaklega erfiða upplifun að hlusta á hvernig andlát dóttur sinnar hafi borið að.
„Þetta er sárt, en mikilvægt,“ segir hún. Dóttur sinnar sé sárt saknað.
„Hún er með okkur alla daga. Það er alltaf eitthvað sem minnir á hana. Það er eitthvað sem mun aldrei hverfa,“ segir móðir Lisu.
Saksóknari hefur krafist gæsluvarðhalds yfir manninum, en auk þess að vera ákærður fyrir morð er hann einnig ákærður fyrir að hafa viðhaft hótanir með hnífi, hatursglæpi og ölvunarakstur. Maðurinn hefur játað sök í öllum ákæruliðum.