Feðginin Haukur Halldórsson og Gunnhildur Hauksdóttir hlutu á dögunum verðlaun hjá Alþjóðlegu tarotstofnuninni fyrir spáspilastokk, Yggdrasil, sem byggður er á norrænni goðafræði. Stokkurinn hefur mestmegnis verið seldur í Bandaríkjunum, en er fáanlegur um hinn enskumælandi heim og á Íslandi þó að hann hafi enn ekki verið þýddur á íslensku.

„Ætli þetta séu ekki nokkurs konar Óskarsverðlaun norna?“ segir Gunnhildur, sem er myndlistarmaður, rétt eins og Haukur faðir hennar. Hún ítrekar að stokkurinn sé í raun ekki tarotstokkur heldur eigið spáspilakerfi.

Rótin að kerfinu og myndunum sem prýða spilin eru Eddukvæðin og níu heimar trésins Yggdrasils. Haukur hefur verið í Ásatrúarfélaginu um áratuga skeið og var góðvinur Sveinbjörns Beinteinssonar heitins, fyrsta allsherjargoðans.

„Hann eyddi oft jólunum hjá okkur og við eyddum sumrum hjá honum að hjálpa til við sauðburð og heyskap,“ segir Haukur.„Verkin mín hafa sótt innblástur í goðafræðina og þjóðtrú síðan Gunnhildur var lítil, hún er alin upp í þessu, heiðnin var alltaf nálæg. Myndirnar sem prýða spilin eru unnar yfir langt tímabil,“ segir Haukur.

Gunnhildur gekk hins vegar ekki formlega í félagið fyrr en á fullorðinsaldri.Stokkurinn var gefinn út hjá bandarísku útgáfunni Llewellyn á síðasta ári. Gunnhildur segir að fólk hafi nýtt hann á fjölbreyttan hátt við spádóma. Til að mynda notað hann með fuþark stafrófsrúnum. „Fólk hefur verið að leggja lögn og kasta svo rúnum yfir hana,“ segir Gunnhildur.

Fyrir gerð Yggdrasils höfðu feðginin ekki starfað saman áður að skapandi verkefni. Haukur teiknaði myndirnar og Gunnhildur skrifaði handbókina sem fylgir og textann á hverju spili. Sjö þúsund stokkar voru prentaðir og kláraðist upplagið. Nú stendur til að endurprenta stokkinn.Aðspurð um íslenska útgáfu segist Gunnhildur gjarnan myndu vilja koma því í kring en til þess þurfi að koma íslenskur útgáfu- og dreifingaraðili.

Ekki er hægt að segja annað en að árið hafi verið gott hjá Hauki, sem er nú orðinn 83 ára gamall. Auk verðlaunanna var ein hans þekktasta afurð, Útvegsspilið, endurútgefin fyrir skemmstu. Hins vegar býr Haukur í Danmörku og hafa þau feðginin ekki getað hist á þessu ári vegna faraldursins, nema á Skype. „Þetta er mjög leiðinlegt því fjölskyldan er mjög dreifð um Evrópu,“ segir Gunnhildur. „En þetta tekur vonandi brátt enda.“