Rétt eftir ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um bílveltu á höfuðborgarsvæðinu. Enginn meiddist, en tveir menn voru handteknir, grunaðir um akstur bifreiðar undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna og að hafa aldrei öðlast ökuréttindi. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Þetta voru ekki einu ökumennirnir sem voru handteknir fyrir vímuakstur í gær. Skömmu fyrir tvö í nótt reyndu lögreglumenn að stöðva ökutæki í Skeifunni en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum og jók hraðann svo lögregla elti hann alla leið í Fossvog. Þar komst bílstjórinn út úr bílnum en var handtekinn síðar. Hann er bæði grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Sex aðrar bifreiðar voru stöðvaðar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn þeirra hafði aldrei öðlast ökuréttindi og farþegi eins bílsins er grunaður um vörslu fíkniefna.

Rétt fyrir hálfátta var tilkynnt um innbrot og þjófnað í miðborginni. Maður braut rúðu í hurð, fór inn og kom út með áfengisflöskur. Hann var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu.

Rétt fyrir átta var líka tilkynnt um innbrot í Kópavogi, en þar var farið inn um glugga. Ekki var vitað hverju var stolið.

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn rétt fyrir tíu á bílastæði við sjúkrastofnun í hverfi 108, en hann var búinn að brjóta rúður í þremur bílum. Hann var vistaður í fangageymslu.

Klukkan átta í gærkvöldi var svo maður handtekinn í miðborginni, grunaður um bruggun áfengis. Hann var látinn laus eftir skýrslutöku en áfengi og tæki til áfengisframleiðslu voru gerð upptæk.