Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 20. maí 2022
22.55 GMT

Rúmum mánuði eftir að Ingvar flutti til Rotter­dam árið 2015 til að einbeita sér að atvinnumennsku í hjólreiðum lenti honum saman við mótorhjól á 80 kílómetra hraða.

Ingvar kastaðist heila tuttugu metra, lenti á höfðinu og töldu sjúkraflutningamenn hann látinn þegar þeir komu á staðinn. Ingvar væri ekki til frásagnar um slysið hefði hann ekki verið með hjálm en gera þurfti tvær stórar aðgerðir á höfði hans til að forða honum frá lömun eða dauða.

„Ég var alltaf krakkinn sem nennti ekki út að hjóla og fílaði það ekki fyrr en ég var 15 ára,“ segir Ingvar aðspurður um upphafið.

„Það var svo eitt sumarið að ég hafði ekkert að gera og Örninn var með tilboð á BMX-hjólum. Ég átti 20 þúsund kall sem dugði akkúrat.“

Vinirnir voru í svipuðum pælingum og Ingvar var fljótur að falla fyrir sportinu.

„Allt í einu var ég kominn á „down-hill“ fjallahjól, eða fjallabrun á góðri íslensku. Sportið snýst þá um að fara upp Esjuna eða Úlfarsfellið eða bara einhvern stað þar sem við komumst í góða hæð. Við löbbum þá upp sem tekur um 50 mínútur og svo erum við svona fjórar mínútur niður, eins hratt og við getum,“ segir Ingvar og það er augljóst að það kemur fiðringur í hjólarann.

„Þess á milli vorum við að finna húsþök og bílskúra til að stökkva fram af. Við vorum bara að leita að einhverju hættulegu til að gera,“ segir Ingvar í léttum tón.

„Þetta er ekki fyrir hvern sem er. En þarna var maður ungur og vitlaus. Ef maður ætlar einhvern tíma að vera að þessu þá er þetta rétti aldurinn.“

Fljótt í hóp þriggja bestu


Ingvar tók þátt í fjallabrunskeppnum en fór svo að hallast að því að hjóla lengri vegalengdir og taka þátt í slíkum keppnum.

„Eftir nokkur ár í fjallabruni komst ég í samstarf við Kríu sem ákvað að lána mér hjól,“ rifjar Ingvar upp og var grunnurinn að ferlinum þá lagður.


„Ég tók þátt í minni fyrstu götuhjólakeppni árið 2012 og sama ár varð ég Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum. Ég hafði greinilega fundið mína réttu grein því árið 2014 var ég kominn í hóp efstu þriggja í götu- og fjallahjólum.“

Þegar afreksíþróttakonan Karen Axelsdóttir bauð Ingvari ásamt fleirum í hjólaferð til Tenerife árið 2015 með þríþrautaræfingahóp sínum fóru hjólin að snúast í tvöfaldri merkingu þess hugtaks.

„Undir lok ferðar bauð einn úr hópnum, Birgir Már Ragnarsson hjá Novator og fyrrverandi Íslandsmethafi í Járnkarli, mér styrk.

Hann sagðist þannig geta hjálpað mér ef ég vildi einbeita mér að hjólreiðunum. Fyrsta árið var þetta bara persónulegur styrkur frá honum en svo breyttum við þessu í Novator-styrk. Ég var þá að fá borgað fyrir að hjóla sem er ein leið til að skilgreina atvinnumennsku.“


Allt annað þurfti að víkja

Það sumar, 2015, fór Ingvar að keppa í útlöndum.

„Ég ákvað að einbeita mér að fjallahjólunum því það er uppáhaldsgreinin mín og sú hentugasta þegar maður er ekki í liði en það eru engin lið á Íslandi,“ segir Ingvar og undir lok sumars flutti hann til Rotterdam ásamt kærustu sinni, Iðunni Örnu.

„Ég var kominn út um miðjan september og keppti með félaga mínum í Evrópumeistaramóti í „cyclo-cross“ utanvegakeppni. Þetta var í fyrsta skipti sem íslenska landsliðið tók þátt í stórmóti. Ég tók þátt þann 7. nóvember, rúmum mánuði eftir að við fluttum utan og fjórum dögum seinna lenti ég í slysinu,“ útskýrir Ingvar.

„Ég hafði hætt í ágætri vinnu sem forritari hjá Dohop og í tölvunarfræðinni í Háskólanum í Reykjavík sem ég var hálfnaður með.“


„Þetta var í fyrsta skipti sem íslenska landsliðið tók þátt í stórmóti. Ég tók þátt þann 7. nóvember, rúmum mánuði eftir að við fluttum utan og fjórum dögum seinna lenti ég í slysinu."


Ingvar segir það hafa verið einu færu leiðina ef hann ætlaði að ná árangri.

„Þetta er ekkert sem maður dúllar sér við, þá er þetta bara hobbí, en ég varð að láta á það reyna að gera þetta af fullri alvöru. Allt annað þurfti að víkja.“

Á þessum tímapunkti hafði Ingvar unnið næstum allt sem hægt var að vinna hér heima.

„Ég held að ég hafi keppt í 40 keppnum og unnið næstum 30. Þetta var þannig að maður var klárlega orðinn langbestur á landinu og ég hugsaði með mér: Ég ætla ekki að vera hérna að dúlla mér við að vinna sömu keppnina ár eftir ár. Ég þarf að sjá hversu langt ég kemst.“

Aðspurður segir Ingvar kærustuna hafa farið í listnám í Rotterdam en ekki lokið því námi enda fór dvölin ekki eins og upphaflega var ráðgert.

„Ég hugsa að ef þú talaðir við hana um það hvernig það fór myndi hún segja að skólinn hafi eiginlega ekkert verið að ganga fyrir hana, en ég myndi segja að ég hafi skemmt fyrir henni námið með slysinu, því næstu mánuðir fóru bara í kaos.“

Rúmum mánuði eftir að Ingvar skildi allt eftir og flutti til Rotterdam þar sem atvinnuferillinn átti að hefjast lenti hann í alvarlegu slysi þar sem hann kastaðist um 20 metra og lenti beint á höfðinu á malbiki. Fréttablaðið/Anton brink

Man ekki eftir slysdeginum


En að degi slyssins örlagaríka, 11. nóvember 2015:

„Ég man ekki eftir deginum sjálfum en man eftir kvöldinu á undan. Ég hafði planað að hjóla svakalegan 120 kílómetra hring í borginni, hálfa leið í átt að landamærum Belgíu.

Þetta var þremur dögum eftir Evrópumótið og ég var kominn á glænýtt götuhjól. Þetta var fyrsti hjólatúrinn á þessu hjóli og ég að hefja æfingaferlið fyrir sumarið á eftir.“

Hjólatúrinn átti að taka um fjórar klukkustundir og er frásögn Ingvars byggð á skýrslum lögreglu enda man hann eins og fyrr segir ekkert frá deginum né slysinu sjálfu.

„Ég var kominn að einum aðalveganna þar sem er grænt ljós og ég kem af minni vegi. Þar er bíll fyrir sem heftir útsýnið. Ég kem öðrum megin við hann en hinum megin kemur mótorhjól á 80 kílómetra hraða. Ökumaður mótorhjólsins hefur engan tíma til að bremsa og fer bara á fullri ferð á mig.

Ég kastast yfir 20 metra, sem er rosaleg vegalengd og ég átti erfitt með að trúa henni. Ég var bara farinn yfir í næsta póstnúmer,“ lýsir hann með tilþrifum.


„Ég kastast yfir 20 metra, sem er rosaleg vegalengd og ég átti erfitt með að trúa henni. Ég var bara farinn yfir í næsta póstnúmer.“


Þyrla og sjúkrabíll send af stað


Ingvar lenti á þjóðveginum og líklega beint á höfðinu.

„Ég hef verið á svona 20 kílómetra hraða enda svolítið að passa mig á leið inn á aðalveginn. Við vorum báðir jafn sekir og engum kennt um enda hafði bíllinn blokkað sjón beggja.

Þetta var greinilega það alvarlegt að það fer af stað svolítið fyndinn prósess,“ segir Ingvar sem er feginn að slysið hafi orðið í Hollandi.

„Þegar svona svakalega alvarlegt slys verður fer af stað ferli sem aðeins er notað þegar um konungsfjölskylduna eða mjög alvarleg slys er að ræða. Þá er kölluð út bæði þyrla og sjúkrabíll og sá sem er fyrr á staðinn bregst við.“

Í þetta skiptið var sjúkrabíllinn undan á vettvang og leist sjúkraliðunum ekki á blikuna fyrst um sinn.

„Þeir horfðu á mig og voru handvissir um að þetta væri búið spil.“


„Þeir horfðu á mig og voru handvissir um að þetta væri búið spil.“


Fékk konunglega þjónustu


Miðað við áverka lenti Ingvar á höfðinu enda lítið um önnur meiðsl og í raun aðeins handleggsbrot sem ekki var sinnt almennilega fyrr en síðar.

„Það var ekki einu sinni verið að spá í því – enda ekki aðalatriði. Ákveðið var að sjúkrabíllinn sem var fyrri til flytti mig á sjúkrahúsið og þá lokar lögreglan öllum vegum inn og út úr borginni. Þetta gera þeir fyrir konungsfjölskylduna og alvarleg slys svo ég fékk „royal treatment“,“ segir hann í léttum tón.

„Á meðan þetta er í gangi eru læknar spítalans mættir á neyðarfund því sjúkraliðunum virtist um tvo höfuðáverka að ræða sem vanalega er ekki gerð aðgerð á samtímis. Ég var höfuðkúpubrotinn, auk þess sem það var blæðing bæði utan og innan á hauskúpu,“ segir Ingvar og sýnir um 12 sentimetra langt ör á höfðinu.

Ingvar var höfuðkúpubrotinn auk þess sem það var blæðing utan og innan á hauskúpu og þurfti að gera tvær aðgerðir samtímist. Mynd/Aðsend

„Í millitíðinni er hringt í kærustuna mína, sem fær afskaplega leiðinlegt samtal við komuna á spítalann, en læknirinn segir við hana: „Hann er að fara í aðgerð. Til öryggis skaltu fara og kveðja hann.“ Það var kannski ekki skrítið enda metið að einhverjar 10 prósent líkur væru á að ég lifði aðgerðina af.“ 


Er í lagi með hjólið mitt?


Eftir kveðjustundina fór Ingvar beint í aðgerð enda mátti engan tíma missa.

„Aðgerðin gekk augljóslega glimrandi vel. Ég man svo fyrst eftir mér að borða morgunmat, í spítalarúmi, tveimur dögum síðar.“

Ingvar var þá löngu vaknaður en man ekki eftir sér fyrr.

„Ég var á spítala í þrjár vikur en fyrstu vikuna gat ég hvorki gengið né setið. Ég átti mjög erfitt með að borða og mundi lítið. Ég þekkti fólk ekki. Það var eins og ég þekkti foreldra mína en samt ekki. Ég átti erfitt með að segja hvar ég væri.“

Ingvar segist eiga svolítið erfitt með að lýsa líðaninni og ástandinu fyrstu vikurnar.

„Þetta er ekki svart og hvítt. Maður er svolítið on/off. Ég man vel eftir einu spaugilegu atviki, því ég hafði greinilega nógu mikið vit á að spyrja læknana mjög fljótlega eftir að ég vaknaði: Er í lagi með hjólið mitt? Eitthvað var því enn tengt í hausnum,“ segir hann í léttum tón.


„Ég man vel eftir einu spaugilegu atviki, því ég hafði greinilega nógu mikið vit á að spyrja læknana mjög fljótlega eftir að ég vaknaði: Er í lagi með hjólið mitt? Eitthvað var því enn tengt í hausnum,."


Hjólar aldrei án hjálms í dag


Ingvar segist fullviss um að reiðhjólahjálmurinn hafi bjargað lífi sínu.

„Ég á hann enn og brot úr hjólastellinu sem sprakk í fimm bita. Það er ekki margt sem lifir 80 kílómetra hraða af.“

Til marks um höggið bendir Ingvar á að gaffall mótorhjólsins beyglaðist en ökumaðurinn hafi sloppið með minni háttar meiðsl.

Ingvar segist hafa verið með góðan hjálm og eftir slysið sé það prinsipp að endurnýja hjálminn árlega.

„Það er mælt með að gera það á tveggja til þriggja ára fresti en ég geri það bara á hverju ári. Þetta skiptir mig miklu meira máli en áður – þá var ég bara með hjálm því allir voru með hjálm. Nú í dag væri ekki séns að ég færi út að hjóla án hjálms. Maður veit aldrei hvað gerist.“

Ingvar á enn hjálminn sem var, eins og gefur að skilja, illa farinn eftir höggið. Hann er geymdur í poka uppi í skáp sem minning um dag sem hefði getað farið á mun verri veg, en í dag stígur Ingvar aldrei á hjól án þess að vera með hjálm.

Sá allt á fimmföldum hraða

Hann segir fyrstu vikuna eftir slysið hafa reynst öllum erfiða.

„Fjölskyldan var áhyggjufull en ég var í togstreitu og vildi ekki sætta mig við að þetta hefði gerst. Ég vildi drífa mig af spítalanum og halda áfram með markmið mitt. Ég gat það ekkert og gat heldur ekki sætt mig við það. Ég var erfiður og röflaði í hjúkkunum um að fá að fara heim.

Eftir á var mér sagt að allt sem ég hefði gert hefði ég gert í „slow-mo“. Sturtan tók yfir 40 mínútur og að borða tók eilífð. Svona upplifði ég þetta ekki – ég sá allt á fimmföldum hraða. Ég þurfti að fara að æfa og keppa. Ég var líka búinn að kaupa miða á nýju Star Wars-myndina sem verið var að frumsýna,“ segir hann og hristir hausinn. „Ég var langt á undan öllum öðrum og það virtist ekki frábært í huga neinna annarra en mín.“


Aðallæknirinn bjargar lífi mínu


Ingvar segist þakklátur fyrir að fyrst hann hafi orðið fyrir þessu slysi hafi það gerst í nálægð við einn besta spítala Evrópu, Erasmus MC.

„Aðallæknirinn þar bjargar lífi mínu, en hún ákvað að gera báðar aðgerðirnar á sama tíma.“ Hann segir að það sé ekki vaninn og í raun hafi það þarna verið gert í fyrsta sinn í Evrópu.

„Ef hún hefði valið aðra aðgerðina hefðum við í raun þurft að sætta okkur við að laga annað en skilja hitt eftir. Hún var ákveðin í að gera þetta og fyrir það er ég þakklátur,“ segir Ingvar, sem á augljóslega erfitt með að hugsa út í hvað hefði getað orðið.


„Ef hún hefði valið aðra aðgerðina hefðum við í raun þurft að sætta okkur við að laga annað en skilja hitt eftir. "


Ingvar man fyrst eftir sér tveimur dögum eftir slysið en eitt það fyrsta sem hann spurði um var: “Er í lagi með hjólið mitt?” mynd/aðsend

„Þetta var reynt í fyrsta sinn og tókst því í fyrsta sinn. Það var því fylgst vel með næstu mánuði enda getur taugaskaði komið fram síðar.

Eitt það sem ég fékk ekki til baka var lyktarskynið, en þær taugar rifnuðu við höggið. Ég sjálfur áttaði mig ekki á að það væri farið fyrr en mánuði síðar. Þá var gott veður og ég ætlaði að draga andann og finna blómalykt en fann ekkert. Þá brotnaði ég niður, þegar ég fattaði það. Það var erfitt.“

Ingvari var sagt að mögulega kæmi lyktarskynið til baka á tveimur árum en það gerði það ekki.

„Ef ég þyrfti að fórna einu skynfæri væri það líklega þetta en það er ekkert gaman að tapa þessu. Eina tilfellið þar sem það er jákvætt er núna, því ég á níu mánaða gamla dóttur. Ég veit aldrei hvenær ungfrúin er búin að gera í buxurnar,“ segir hann og hlær, en pabbinn hefur aftur á móti heldur aldrei fundið ilminn af nýfæddri dóttur sinni.


„Eitt það sem ég fékk ekki til baka var lyktarskynið, en þær taugar rifnuðu við höggið."


Þreyttur á að vera þreyttur


Ingvar segir lækna hafa verið furðu lostna yfir skjótum bata hans en eftir þrjár vikur á sjúkrahúsi átti að taka við mánuður í endurhæfingu í næsta húsi.

„Eftir útskrift fór ég í viðtal á endurhæfingarstöðinni og var lagt fyrir mig flókið próf. Í þessu prófi kemur í ljós ef hausinn er svolítið bilaður og ég get ekki platað lækninn til að halda að ég sé betri en ég er.“


Ingvar er enn sigri hrósandi þegar hann segir frá því hvernig læknirinn útskrifaði hann eftir þetta próf og stutt spjall. Hann fékk feginn að fara heim undir eftirliti.

„Eftir viku stalst ég út að hjóla með bróður mínum og var alltaf að gera einhverja svona vitleysu. Ég fann fyrir þreytu og jafnvægisleysi en var alltaf að reyna að blokk­era það. Hugarfarið hjálpaði mér mikið. Einhver hefði gefist upp en ég hugsaði alltaf að ég ætlaði að halda áfram.“

Ingvar er enn á uppleið í sportinu og segist vinna í því að finna jafnvægi milli atvinnumennskunnar og föðurhlutverksins. Fréttablaðið/Anton Brink

En eftir svo mikið höfuðhögg og stórar aðgerðir tók tíma að verða samur. Það reyndi á taugar 26 ára íþróttamanns.

„Ég var pirraður á ýmsu. Ég var þreyttur á að vera þreyttur en fyrstu vikurnar þurfti ég bara að sofa 18 tíma á sólarhring.

Ég man vel eftir fyrstu tilraun til að fara út í búð sem var hinum megin við götuna en reyndi gríðarlega á. Líkaminn var bara í 100 prósent vinnu við að laga hausinn á mér og lítil orka eftir í annað.“


Blokkeraði andlegu áhrifin


Tveimur mánuðum eftir útskrift var Ingvar kominn til Tenerife þar sem hann ætlaði að dvelja í fimm vikur og koma sér aftur í form.


„Það var mjög erfiður tími. Ég var alltaf að reka mig á að geta ekki gert það sem ég vildi gera og þarna fór ég hægt og rólega að átta mig á andlegu áhrifunum. Þau hafði ég blokkerað fyrstu vikurnar. Þegar þarna var komið áttaði ég mig á því að ég væri pínu þunglyndur, leiður.“

Ingvar lýsir því hvernig hann hafi orðið tilfinninganæmari, opnari á einhvern hátt.

„Ég hjólaði upp á eldfjallið, Teide, þar sem ég sá dauðan íkorna. Ég bara fór að gráta, eins og þetta væri barnið mitt,“ lýsir Ingvar og reynir að lýsa breytingunni sem varð tímabundið á tilfinningalífinu eftir slysið.

„Mér leið meira – var ekki sami kassi eða vélmenni. Ég fór að blogga um það hvernig mér leið. Ég hafði mikið meira að segja og var í betri tengingu við sjálfan mig.

Ég reyndi eins og ég gat að halda í þetta en svo eftir svona ár lokaðist á þetta aftur. Ég hugsaði þá: „Af hverju mátti ég ekki bara vera svona?“


„Ég fór að blogga um það hvernig mér leið. Ég hafði mikið meira að segja og var í betri tengingu við sjálfan mig."


Ingvar segir þessa hlið á sér þó ekki alveg horfna.

„Ég er þakklátari fyrir lífið. Maður er einhvern veginn betri manneskja. Ég var ákveðinn í að sigrast á þessu. Draumurinn um að verða rosa góður hjólari var enn lifandi,“ segir Ingvar og er viss um að án hans hefði hann átt erfitt með að sætta sig við slysið. „Ég var nýbyrjaður og strax sleginn niður.“


Held ég hafi verið hræðilegur


Árið eftir slysið, 2016, reyndist stormasamt.

„Ég var svo leiserfókuseraður á að sanna mig, fyrir sjálfum mér fyrst og fremst, en einnig þeim sem höfðu aðstoðað mig.“

Ári eftir alvarlegt slys þar sem Ingvari var vart hugað líf tók hann þátt í 44 keppnum, þar af 24 í útlöndum.

„Þetta ár var ég í versta formi ferilsins, versta andlega ástandinu og með flestar keppnir. Ég þurfti að vera að non stop.

Kærastan mín neitaði að koma með mér í einhverjar af mínum keppnisferðum og þurfti að jafna sig á allt annan hátt en ég. Við hefðum alveg getað hætt saman þetta ár. Ég held ég hafi verið alveg hræðilegur,“ segir hann einlægur.


„Við hefðum alveg getað hætt saman þetta ár. Ég held ég hafi verið alveg hræðilegur,“


Keppnirnar gengu vel til að byrja með en svo fór gengið niður á við. Hann var ekki tilbúinn.

„Ég var orðinn hræðilegur í lokin. En á sama tíma, undir lok ársins var ég fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í Heimsmeistaramótinu í fjallahjólreiðum svo ég var að gera fullt af nýjum hlutum líka. Ég var ekki búinn að gefast upp og það var ekki búið að drepa mig. Ég var bara lifandi á einhverri rosalega sterkri jákvæðri orku og þurfti að gera ákveðna hluti.“


Enn á uppleið í sportinu


Parið flutti svo til Danmerkur þar sem það bjó í tvö ár.

„Ég keppti á fullu, á veturna fór ég nokkrum sinnum til Spánar til að æfa og flaug svo út um allt til að keppa. Maður var aldrei að staldra við en hægt og rólega hætti þetta slys að vera hluti af lífinu.

Nú erum við búin að búa hér á Íslandi í fjögur ár og ég er enn á uppleið í þessu sporti svo það eru engin merki um að þetta slys hafi hægt á mér. En þetta er lífsreynsla sem maður gleymir aldrei."

Ingvar ásamt konu sinni, Iðunni Örnu, og dóttur þeirra, Elvu Lóu, sem Ingvar hefur aldrei fundið lyktina af enda fór lyktarskynið við höfuðhöggið. Mynd/aðsend

Ingvar er í dag í hópi 50 bestu fjallahjólreiðamanna heims en því markmiði náði hann á síðasta ári.

„Ég fór alla leið úr sæti hundrað þrjátíu og eitthvað í sæti 42.“

Ingvar er 33 ára gamall og á besta aldri í hjólreiðasportinu að eigin sögn.

„Það fer svolítið eftir greinum en heimsmeistarinn í fjallahjólreiðum er 36 ára og elsti heimsmeistari sögunnar er 39 ára.“


Erfitt að fara í keppnisferðir


Í lok september fer Heimsmeistaramótið í fjallahjólreiðum fram í Danmörku og ætlar Ingvar sér stóra hluti þar.

„Ég gæti ekki verið nær mínum heimavelli svo þetta er mögulega tækifæri til að gera eitthvað merkilegt. Ég er ekki að segja að ég sé að fara að vinna þetta mót en ég gæti náð besta árangri ferilsins.“

Eins og fyrr segir eignuðust þau Ingvar og Iðunn nýverið dótturina Elvu Lóu. Hefur tilkoma hennar ekki breytt miklu fyrir atvinnuíþróttamanninn sem er vanur að vera með leiserfókus?

„Jú, ég sef aldrei,“ segir hann og hlær.

„Það er óþolandi að viðurkenna það fyrir sjálfum sér en það er merkilega erfitt að fara í keppnisferðir núna.

Það er klárlega eitthvað sem skiptir meira máli en sportið í dag. Það gerir mann líka yfirvegaðri að þó eitthvað klikki í sportinu er það kannski ekki það versta sem getur komið fyrir mann.

Á sama tíma er það atriði hjá mér að láta ekki breyttar aðstæður dempa mín markmið, ég er að reyna að finna þennan ballans og það tekur tíma. Ég má ekki slá af því sem ég er að gera en það má aldrei bitna á fjölskyldunni.“

Athugasemdir