Líkt og Íslendingar horfa saman á Skaupið á hverju ári horfa kínverskar fjölskyldur saman á vorhátíðarveislu kínverska ríkissjónvarpsins, CCTV, sem sýnd verður þessa helgi. Tilefnið er mikilvægasta hátíð Kínverja, áramót þeirra samkvæmt hinu forna mána-almanaki.

Á þessum síðasta degi ársins sameinast fjölskyldur og snæða ýmsa táknræna rétti. Líkt og á íslensku aðfangsdagskvöldi fá börnin gjafir eftir matinn. Fjölskyldur horfa síðan á Vorhátíðarveisluna í ríkissjónvarpinu.

Vorhátíðarveislan er árlegur fimm tíma sjónvarpsþáttur sem stendur yfir á gamlársdag frá klukkan sjö að kvöldi fram að miðnætti.

Þátturinn er talinn með mesta fjölda áhorfenda allra þátta í heiminum. Þannig er fjöldi áhorfenda áætlaður að minnsta kosti 700 milljónir. Talið er að meira en einn milljarður áhorfenda hafi horft á Vorhátíðarveisluna árið 2018.

Dagskráin inniheldur blöndu af gamanþáttum, söngvum og dansi, fimleikum og töfrum sem fremstu listamenn flytja. Dagskránni er ætlað að endurspegla hina tugi þjóðarbrota Kína og að vera fyrir alla aldurshópa.

Með breyttri sjónvarpstækni hefur sviðið stækkað. Undanfarin ár hefur hluti þáttarins verið sendur út frá sérstökum vinnustofum í öðrum landshlutum Kína, svo sem Guangzhou, Xi'an og Xichang.

Dagblaðið China Daily segir að í fyrra hafi meira en 20.000 listamenn komið fram í dagskránni eftir áralangan undirbúning.